Athugasemdir við umfjöllun Kastljóssins um Baugsmálið

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs Group hf, Gestur Jónssonar hrl. og Jakob R. Möller, verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, sendu í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem athugasemdir eru gerðar við umfjöllun Kastljóss Sjónvarpsins um Baugsmálið nú í kvöld. Þá hefur bréf sem Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group hf, sendi Páli Magnússyni útvarpsstjóra í dag verið gert opinbert. Segir Jón Ásgeir þar, að því miður virðist vera að misnota sjónvarp allra landsmanna.

Í umræddum gögnum er því mótmælt að fjallað sé um málið með þeim hætti sem gert hafi verið, þegar það hafi enn ekki verið tekið til málsferðar, og að umræddur þáttur skuli hafa verið byggður á fullyrðingum Jóns Geralds Sullenbergers, sem hafi verið dæmdur ótrúverðugt vitni í málinu. Þá er því m.a. haldið fram að tveir af umsjónarmönnum þáttarins séu í vinfengi við hann.

Í yfirlýsingunum frá lögmönnunum og stjórnarformanni Baugs kemur fram, að umsóknarmenn Kastljóssins hafi haft samband við lögmenn sakborninga og þeim sagt, að til stæði að fjalla um málið og byggt yrði á viðtölum við Jón Gerald Sullenberger og á gögnum sem hann hefði látið í té. Segja lögmennirnir, að í málinu væri tekist á um sönnunargildi tiltekinna skjala, þar á meðal tölvubréfa. Fyrir liggi skýrsla dómkvaddra matsmanna um að tiltekin tölvubréf finnist í tölvu Jóns Geralds og það sé álit færustu sérfræðinga að ómögulegt sé að fullyrða neitt um það hvort slík gögn séu upprunaleg eða ófölsuð.

Þá segja lögmennirnir að sakborningar eigi eftir að leggja fram frekari gögn, sem stafi frá þeim og Baugi Group. Fráleitt sé að reyna að upplýsa málið í stuttum sjónvarpsþætti.

Í yfirlýsingu Hreins er bent á að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi komist að þeirri niðurstöðu að Jón Gerald væri ótrúverðugt vitni og sönnunargildi gagna, sem frá honum stöfuðu, væri takmarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert