Ekki fallist á kröfu um að dómari víki í Baugsmáli

Jón Gerald Sullenberger og Brynjar Níelsson, lögmaður hans, í Héraðsdómi …
Jón Gerald Sullenberger og Brynjar Níelsson, lögmaður hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hæstiréttur féllst ekki á kröfu Jóns Geralds Sullenbergers, sem nú sætir ákæru í Baugsmálinu, um að Arngrímur Ísberg, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, víki sæti í málinu af þeim ástæðum að hann hefði í dómi í öðru máli lagt mat á trúverðugleika Jóns Geralds sem vitnis.

Arngrímur úrskurðaði að hann ætti ekki að víkja sæti í málinu. Staðfestir Hæstiréttur þann úrskurð og vísar til forsendna Arngríms.

Arngrímur var einn þriggja dómara sem dæmdi í hluta af Baugsmálinu þann 15. mars sl. Jón Gerald var vitni í því máli og lagði dómurinn mat á sönnunargildi framburðar hans.

Arngrímur segir í úrskurði sínum, að niðurstaða dómara í einu máli, hvort sem hún byggist á mati á sönnunargildi fram­burðar eða túlkun laga, valdi ekki því að hann sé vanhæfur til að dæma annað mál þar sem reyni á mat á framburði sömu vitna og ákærðra manna eða túlkun á ákvæðum sömu laga. Því hafnaði hann kröfu Jóns Geralds um að víkja sæti.

Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í Baugsmálinu, benti Arngrími á, að afstaða hans til túlkunar á 104. gr. hlutafélagalaga í Baugsmálinu kynni að leiða til vanhæfis hans. Saksóknari gerði hins vegar ekki kröfu um að dómarinn viki sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert