SMS segir umfjöllun Kastljóssins hafa verið villandi

Lögmaður SMS verslunarkeðjunnar í Færeyjum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að umfjöllun Kastljóss Sjónvarpsins í gærkvöldi, um yfirheyrslur lögreglu yfir einum eiganda SMS, hafi verið villandi.

SMS kemur við sögu í Baugsmálinu en þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra, er gefið að sök í ákæru að hafa haft frumkvæði að því að SMS gaf út tilhæfulausa yfirlýsingu um að færa ætti 46,7 milljónir króna til eignar hjá Baugi á viðskiptamannareikningi SMS.

Fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins í gær, að feðgarnir Niels og Hans Mortensen, sem eiga stóran hlut í SMS í Færeyjum, hafi fullyrt við yfirheyrslur lögreglu að Tryggvi hefði beðið þá um að útbúa þennan tilhæfulausa kreditreikning en Baugur átti þá helmingshlut í fyrirtækinu. Í kjölfar lögregluaðgerða gegn Baugi hefði Tryggvi beðið um fund með Niels og beðið hann að greina lögreglu rangt frá tilurð reikningsins ef til þess kæmi.

Í yfirlýsingu lögmanns SMS í dag, segir að í upphaflegri yfirheyrslu yfir Nils Mortensen, 10. september 2002, hafi hann verið mjög óöruggur og á eftir óviss um hvað hann hefði sagt, því hann var mjög sleginn yfir húsleit, sem starfsmenn íslenska ríkislögreglustjórans gerðu á skrifstofum SMS í Færeyjum.

Daginn eftir fóru fram nýjar yfirheyrslur yfir Niels og Hans föður hans. Þar hafi Niels neitað að staðfesta fyrri framburð sinn að Tryggvi Jónsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hefði beðið hann um að gefa ákveðna skýringu á útgáfu inneignarreiknings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert