Tölvupóstar benda til tengsla Baugs við bátinn

Fram kemur í tölvupóstssamskiptum milli Jóns Geralds Sullenberger og Tryggva Jónssonar, sem báðir eru ákærðir í Baugsmálinu, að kostnaður vegna slipptöku skemmtibátsins Thee Viking sé 16.808,80 dollarar. Skömmu síðar greiddi Baugur Jóni Gerald 16.809 dollara, sem Tryggvi segir í yfirheyrslu hjá lögreglu hafa verið launakostnað.

Þetta kom fram í fréttaskýringu Kastljóssins um Baugsmálið í RÚV í gærkvöldi. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, eru í ákæru sakaðir um að hafa dregið sér fé úr Baugi með því að láta fyrirtækið greiða alls um 32,3 milljónir króna fyrir hlut Jóns Ásgeirs og Jóhannesar Jónssonar í bátnum.

Fram kom að óumdeilt væri að skemmtibáturinn hefði verið skráður á Jón Gerald, en hann heldur því fram að Jón Ásgeir og Jóhannes hafi keypt bátinn í félagi við sig. Þessu neitar Jón Ásgeir. Jón Gerald segir að stofnað hafi verið sérstakt félag um rekstur bátsins í Bandaríkjunum, og það hafi heitið New Viking. Það félag hafi fengið mánaðarlegar greiðslur frá Baugi vegna hlutdeildar Jóns Ásgeirs og Jóhannesar í bátnum, en á reikningum félagsins til Baugs hafi staðið að þeir væru til komnir vegna kaupa á vörum og þjónustu frá Jóni Gerald.

Í viðtali við Kastljósið sagði Jón Gerald frá fundi sem hann átti með Jóni Ásgeiri og Tryggva í höfuðstöðvum Baugs þar sem ákveðið var hvernig Baugur ætti að inna af hendi greiðslur vegna bátsins. Á fundinum var ákveðinn textinn sem standa átti á reikningum sem Jón Gerald átti að senda Baugi, en þar eru reikningarnir sagðir vegna samningsbundinna gjalda fyrir þjónustu, vörur og ráðgjöf. Í ákæru kemur fram að upphæðirnar sem ákært er vegna eru fyrst um sinn 8.000 dollarar, en verða fljótlega 12.000 dollarar.

Slippkostnaður eða ráðgjafarþjónusta?

Jón Gerald sagðist ekki hafa gert neitt rangt þegar hann sendi reikninga vegna bátsins, sem á stóð að væru vegna þjónustu og ráðgjafar. "Þetta var bara skipun frá forstjóra fyrirtækisins, svona vildu þeir hafa þetta. Ég var ekkert að skipta mér af bókhaldi Baugs, það kemur mér ekkert við hvernig þeir gera sitt bókhald."

Í Kastljósinu var vitnað í tölvupóstssamskipti milli Jóns Geralds og Tryggva, þar sem Jón Gerald lýsir því að kostnaður vegna þess að taka þurfti bátinn í slipp sé samtals 16.808,80 dollarar, og spyr hvernig hann eigi að senda reikninginn. Tryggvi svarar um hæl, og spyr hvort þetta eigi ekki að falla undir rekstrarkostnaðinn og vera hluti af 12 þúsund dollurunum.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu er Tryggva bent á reikning frá 22. maí 2002 þar sem Baugur greiðir 16.809 dollara til Nordica, og hann spurður hvort hann geti útskýrt þessa greiðslu, sem lögregla sjái ekki betur en sé vegna slippkostnaðar á bátnum. Tryggvi segir að í sínum huga hafi hann verið að greiða mánaðarlegan launakostnað Jóns Geralds. Hann kveðst ekki geta svarað þessu nánar. Jón Ásgeir var spurður um sömu færslu, og sagði hann að Baugur hefði verið að greiða ráðgjafarþjónustu til Jóns Geralds.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert