2,4 milljónir á greiðslukorti Gaums vegna Thee Viking?

Birt voru tölvupóstssamskipti í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld úr málsgögnum Baugsmálsins, sem lögregla telur renna stoðum undir ásakanir um að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, og Tryggvi Jónsson, fyrrv. aðstoðarforstjóri Baugs, sem eru ákærðir í málinu, hafi látið Baug greiða kostnað vegna skemmtibátsins Thee Viking í Bandaríkjunum.

Birtir voru þrír tölvupóstar. Sá fyrsti frá Jóni Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóra Nordica, sem er einnig ákærður í málinu, þó ekki í þeim ákærulið þar sem skemmtibáturinn kemur við sögu. Hann var sendur til Tryggva Jónssonar 13. maí 2002. Þar segir:

"Sæll Tryggvi. Báturinn var að koma úr slipp, þetta er það árlega sem þarf að gera og er þetta total $16.808,80. Hvernig viltu að ég sendi þér reikninginn?"

Annar tölvupósturinn er svar Tryggva til Jóns Geralds, sent sama dag: "Var ekki gert ráð fyrir þessu í $12.000 dollara fjárhæðinni? Ég hélt að þegar við vorum að ákveða þá fjárhæð þá hefðum við tekið allan rekstrarkostnaðinn með. Þar með talið þetta? Er þetta misskilningur hjá mér?"

Í ákæru eru Tryggvi og Jón Ásgeir sakaðir um fjárdrátt með því að hafa látið Baug greiða reglulega upphæð til Nordica og annars fyrirtækis Jóns Geralds, sem ákæruvaldið byggir á að séu vegna kostnaðar við bátinn, en því hafa Tryggvi og Jón Ásgeir neitað. Fyrst eru greiddar 8 þúsund dollarar á mánuði, en fljótlega er upphæðin hækkuð í 12 þúsund dollara.

Mánaðarlegur launakostnaður Jóns Geralds, segir Tryggvi

Í yfirheyrslu lögreglu yfir Tryggva, sem birt var brot úr í Kastljósi í fyrrakvöld, kemur fram að lögreglumaður hafi spurt Tryggva um þá upphæð sem nefnd er í tölvupóstinum, 16.808,80 dollara, en sama upphæð kemur fram á sölureikningi frá Nordica sem Baugur greiddi. Tryggvi segir að í hans huga hafi hann verið að greiða mánaðarlegan launakostnað Jóns Geralds, og kveðst ekki geta skýrt þetta nánar. Jón Ásgeir var spurður um það sama við yfirheyrslur, og segir hann að þarna sé verið að greiða fyrir ráðgjafaþjónustu Jóns Geralds. Fram kom í máli Jóns Geralds í Kastljósþættinum að hann hafi verið handhafi greiðslukorts í nafni Gaums, fjárfestingafyrirtækis fjölskyldu Jóns Ásgeirs, Jóhannesar Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur. Kortið hafi hann átt að nota til að greiða kostnað vegna bátsins.

Þriðji tölvupósturinn er frá Kristínu Jóhannesdóttur, forstjóra Gaums, sendur til Jóns Geralds. Þar segir: "Ég hef ekkert fengið frá þér vegna Vísareikn. Reikn. sem er nú til greiðslu um mánaðamótin er um kr. 195.000.- Ég átta mig ekki á þessum kostnaði þar sem þú færð senda $12.000 á mánuði frá Tryggva til greiðslu á bátakostnaði. Ég er að greiða um það bil kr. 2,4 millj. á ári í Vísareikn. vegna báts. Ég vil fá skýringar á þessu, sundurliðanir á kostnaði (afborganir, viðhald, kostn. vegna bátaleigu) allt sem viðkemur þessum bát. Við skulum fá þetta á hreint. Kveðja, Kristín."

Jón Ásgeir segir í yfirheyrslum hjá lögreglu að þessi kostnaður sé til kominn vegna hafnarleigu þann tíma sem hann var með bátinn, sem hann hafi greitt með greiðslukorti Gaums. Greiðslur að upphæð 12 þúsund dollarar hafi verið rekstrarstyrkur til Nordica, en ítrekar að hvorki Baugur né Gaumur hafi greitt beinan kostnað vegna bátsins.

Viðtakendur kannast ekki við tölvupóstana

"Tölvupóstarnir sem vitnað var til í þáttunum [á mánudag og þriðjudag] eru þannig að þeir finnast eingöngu í tölvu Jóns Geralds Sullenberger. Þeir sem eiga að vera viðtakendur eða samskiptaaðilar hans kannast ekki við þessa pósta, og þeir hafa ekki fundist í tölvum þeirra," sagði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær.

"Það skal líka tekið fram að það eru póstar sem finnast bæði hjá Tryggva Jónssyni og Jóni Gerald sem sýna samskipti þeirra á milli, en þessir póstar eru ekki þar á meðal," sagði Gestur. Hann staðfesti að hægt væri að senda tölvupósta úr öðrum tölvum en sinni eigin, en benti jafnframt á að auðvelt væri að búa til pósta af því tagi sem þarna væri um að ræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert