Fjallað um mál Jónínu Benediktsdóttur gegn 365 prentmiðlum í Hæstarétti

Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is
JÓNÍNA Benediktsdóttir hefur fallið frá hluta kröfu sinnar á hendur Kára Jónassyni, ritstjóra Fréttablaðsins, vegna umfjöllunar blaðsins um efni úr tölvupóstum Jónínu, en kröfur hennar á hendur 365 prentmiðlum eru enn óbreyttar. Tekist var á um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins í Hæstarétti Íslands í gær.

Jónína höfðaði mál til staðfestingar lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á birtingu Fréttablaðsins á efni úr tölvupóstum hennar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar krafðist hún þess einnig að hún fengi tölvupóstana í hendur, og að ritstjóra Fréttablaðsins yrði gerð refsing fyrir að hnýsast í einkaskjöl hennar og birta opinberlega. Héraðsdómur hafnaði lögbannskröfunni með dómi þann 14. desember sl., og vísaði refsikröfu á hendur ritstjóranum frá dómi. Var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar, og fór málflutningur fyrir réttinum fram í gær.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Jónínu, upplýsti þar að fallið hefði verið frá því að krefjast refsingar yfir ritstjóra Fréttablaðsins fyrir brot gegn 1. og 3. málsgrein 228. gr. almennra hegningarlaga, en þar er lagt bann við því að hnýsast í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur gögn sem hafi að geyma einkamál, hafi viðkomandi komist yfir gögnin með brögðum eða áþekkum leiðum.

Áfram er þess þó krafist að Kára verði gerð refsing, sem ritstjóra og ábyrgðarmanni ritstjórnar, fyrir brot gegn 229. gr. sömu laga. Þar segir að hver sá sem skýri opinberlega frá einkamálefnum annars, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Fengin með ólögmætum hætti

Hróbjartur hélt því fram fyrir dómi að með því að birta efni tölvupósta Jónínu hefði Fréttablaðið brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar. Sagði hann gögnin óumdeilanlega fengin með ólögmætum hætti, þar sem þau hefðu greinilega verið prentuð út úr tölvupósthólfi Jónínu, án þess að hún gæfi fyrir því leyfi. Hann sagði Jónínu hafa óskað eftir því við ritstjóra Fréttablaðsins að birtingu yrði hætt, og gögnunum skilað, eftir að frétt byggð á efni tölvupóstanna var birt í fyrsta skipti.

Hann sagði ennfremur að í fréttum blaðsins af efni póstanna hefði verið dregin upp neikvæð mynd af Jónínu, einstök ummæli tekin úr réttu samhengi og sett í samhengi sem hentaði til að vega að persónum þeirra er þar komu fram.

Þessu mótmælti Jón Magnússon, verjandi 365 prentmiðla og Kára Jónassonar, harðlega. Ekkert hefði verið birt um einkalíf Jónínu, hún hefði raunar verið algert aukaatriði í málinu, fréttirnar hefðu fjallað um tildrög hins svokallaða Baugsmáls, ekki persónu Jónínu. Jón sagði það rangt hjá lögmanni Jónínu að hún hefði óskað eftir því að birtingu yrði hætt, og hún fengi afritið af póstum sínum til baka. Engin formleg beiðni lægi fyrir um það.

Ennfremur benti Jón á að ekkert lægi fyrir um að gögnin kæmu úr tölvu Jónínu, þar væri m.a. að finna samskipti sem hún hefði ekki tekið þátt í, t.d. milli sakborninga í Baugsmálinu. Ekki væri heldur hægt að segja að dregin hefði verið upp neikvæð mynd af Jónínu, hvað þá að ummæli hefðu verið tekin úr samhengi. Hún hefði verið spurð um þetta fyrir héraðsdómi og ekki viljað taka dæmi um það.

Jón mótmælti því ennfremur að gögnin sem Fréttablaðið hefði fengið í hendur hefðu verið stolin, ekkert lægi fyrir um að svo væri. Hann sagði Sigurjón M. Egilsson, fréttaritstjóra blaðsins, hafa fengið ljósrit af því sem virtist vera tölvupóstar í umslagi, umbjóðendur sínir hefðu því engu stolið og hreinar getgátur að fullyrða slíkt.

Aldrei stuðst við tölvupóstana eingöngu

Tekist var á um grundvallarmál í réttarsal í gær, prentfrelsi og friðhelgi einkalífsins. Hróbjartur Jónatansson sagði fjölmiðla ekki geta tekið sér þann rétt að birta opinberlega einkagögn, sá réttur yrði að vera þeirra einstaklinga sem ættu gögnin. Staðfesti Hæstiréttur þetta ekki í dómi sínum nú mætti segja að það gæti orðið upphafið að einhverskonar villta vestri íslenskrar blaðamennsku, enda mætti með sömu rökum og lögmaður 365 beitti segja að heimilt væri að taka upp einkasamtöl í mikilli fjarlægð og nota efni þeirra sem tilefni blaðagreina.

Jón Magnússon sagði þvert á móti að það hefði varðað almannahagsmuni að birta upplýsingar úr tölvupóstunum, en aldrei hefði verið stuðst við þá eingöngu, heldur hefði góðum og gildum aðferðum blaðamanna verið beitt, og staðfestinga leitað á þeim upplýsingum sem fram komu í póstunum. Þess hefði sérstaklega verið gætt að sneiða hjá því sem gæti talist persónulegar upplýsingar, og einungis birtar fréttir sem hefðu varðað almenning í landinu beint, þar sem þjóðþekktir einstaklingar hefðu komið að upphafi Baugsmálsins.

Jón var afar ósáttur við lögbann Sýslumannsins í Reykjavík, og benti á að ef það yrði staðfest í Hæstarétti væri vegið með alvarlegum hætti að prentfrelsinu. Af því gæti leitt að einstaklingur sem vissi að fjölmiðill hefði um hann gögn sem hann vildi ekki fá fram í dagsljósið gæti krafist lögbanns, og hindrað þannig fjölmiðilinn í að birta fréttir um málið meðan meðferð fyrir dómstólum færi fram. Slíkt setti einfaldlega frjálsa fjölmiðlun í hættu, og væri andstætt grundvallarsjónarmiðum ákvæða stjórnarskrár um tjáningarfrelsi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert