10, 50 og 100 króna seðlar innleystir

Sýnishorn af 50 króna seðli.
Sýnishorn af 50 króna seðli.

Í lok apríl sl. voru enn í umferð um 119 milljónir króna af 10, 50 og 100 króna seðlum, sem Seðlabankinn hefur hætt að setja í umferð en í staðinn fyrir þessa seðla hefur verið slegin mynt í sömu verðgildum. Hefur Seðlabankinn nú veitt frest til 1. júní 2007 til að innleysa þessa seðla.

Í ársbyrjun 1981 var gjaldmiðilsbreyting á Íslandi þegar verðgildi krónunnar var hundraðfaldað. Nýr gjaldmiðill var gefinn út og eldri peningar innleystir fyrir nýja. Meðal annars voru settir 10, 50 og 100 króna seðlar í umferð. Árið 1984 hætti Seðlabanki Íslands að setja 10 króna seðla í umferð, 1987 50 króna seðla og 1995 var hætt að setja 100 króna seðla í umferð. Í staðinn fyrir þessa seðla var slegin mynt með sömu verðgildum. Í lok apríl sl. voru enn í umferð um 119 milljónir króna af 10, 50 og 100 króna seðlum.

Með reglugerð nr. 1125 frá 25. nóvember 2005 ákvað forsætisráðherra að 10, 50 og 100 króna seðlar skuli innkallaðir. Hefur Seðlabankinn nú auglýst 12 mánaða frest til að innleysa þessa seðla, eða til 1. júní 2007. Á tímabilinu eru allir bankar og sparisjóðir skyldugir að taka við þessum seðlum og láta í staðinn annan lögmætan íslenskan gjaldmiðil. Að þessum fresti liðnum hætta seðlarnir að vera gjaldgengir í viðskiptum en Seðlabankinn mun innleysa þá í ekki skemmri tíma en 12 mánuði eftir að fresturinn rennur út.

10 krónu seðill.
10 krónu seðill.
100 krónu seðill.
100 krónu seðill.
mbl.is