Alþjóða reyklausi dagurinn í dag

Alþjóðlegur reyklaus dagur er í dag.
Alþjóðlegur reyklaus dagur er í dag. AP

Miðvikudagurinn 31. maí er árlegur alþjóðadagur án tóbaks. Í ár er lögð áhersla á að hvetja fólk til að nota tækifærið og hætta að nota tóbak. Slík breyting á hegðun gerist yfirleitt í þrepum og Lýðheilsustöð hefur útbúið efni á heimasíðu sinni með ráðleggingum til að auðvelda fólki að hætta. Einnig eru upplýsingar um þá sem veita aðstoð við að hætta tóbaksnotkun.

Til þess að vekja athygli á deginum og ráðleggingunum var ráðist í gerð auglýsinga, sem birtar eru í dagblöðum og sem skjáauglýsingar í dag, auk þess sem þær munu birtast víðar í framhaldi af tóbakslausa deginum. Fyrirsagnirnar vísa í ávinninginn af því að hætta, en textinn leiðir fólk á heimasíðu Lýðheilsustofnunar.

Lýðheilsustöð er í samstarfi við flestar stærstu verslunarkeðjur landsins um að minna á lög um sölu á tóbaki, þ.e. að yngra fólk en 18 ára megi hvorki kaupa né selja tóbak. Ráðist var í þetta samstarf nú bæði vegna tóbakslausa dagsins og vegna þess að sumrin eru sá tími sem margt ungt fólk kemur til starfa í verslunum og er einnig sá tími sem ungt fólk byrjar helst að nota tóbak.

Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður verða í Kringlunni og Smáralind og veita fólki upplýsingar og aðstoð við að hætta tóbaksnotkun. Þá verður símaþjónustan Ráðgjöf í reykbindindi - sími 800 6030, opin lengur en vanalega eða frá kl. 10-22. Þangað getur fólk hringt og fengið aðstoð hjá sérþjálfuðum hjúkrunarfræðingum við að hætta tóbaksnotkun.

mbl.is