Guðni segir Halldór hafa kynnt aðra niðurstöðu en þeir komust að

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, ræðir við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfundinn í dag.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, ræðir við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfundinn í dag. Kjartan Þorbjörnsson

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir Halldór Ásgrímsson, fráfarandi forsætisráðherra, hafa rætt um að axla ábyrgð eftir sveitastjórnarkosningarnar. Nokkur hópur samstarfsmanna Halldórs hafi sagt honum að Halldór myndi aldrei standa upp úr stóli formanns fyrir honum en vildi ná samstöðu með honum um að kjósa nýja forystu fyrir Framsóknarflokkinn. Halldór hafi þó ekki kynnt þá niðurstöðu í gær á Þingvöllum.

Niðurstaðan hafi orðið sú að hann hafi viljað hafa hagsmuni flokksins að leiðarljósi og fá sem fyrst nýja forystu. Ýmsir í hópi Halldórs hafi horft til Finns Ingólfssonar um að snúa aftur í stjórnmál. Hugsunin hafi verið sú að mynda sterka samstöðu um það í þingflokki og landsstjórn að menn myndu nú í júní kjósa nýja forystu fyrir Framsóknarflokkinn og að Halldór og Guðni yrðu þar ekki í forystu. Rætt hefði verið um miðstjórnarfund og flokksþing sem vettvang kosninganna og miðstjórnarfundur orðið fyrir valinu.

„Halldór Ásgrímsson tilkynnti allt aðra niðurstöðu á Þingvöllum en að kjósa nýja forystu í júní eða reyna að ná samstöðu um nýjan formann og varaformann í Framsóknarflokknum. Býst ég við að það hafi stafað af því að þetta mætti andblæstri grasrótar Framsóknarflokksins og var orðið flókið og erfitt mál," segir Guðni. Því hafi yfirlýsing Halldórs komið honum sem og mörgum öðrum á óvart. Hann hefði ekki áður heyrt það sem þar kom fram. „Hann var ekkert að ræða um það samkomulag sem við höfðum gert til að ná samstöðu um nýja forystu flokksins. Þess vegna kom það mér á óvart að hann skildi tilgreina að við værum með samkomulag í höndunum, ég og hann, af því hann kynnti aðra niðurstöðu."

Finnur hafi auðvitað íhugað þetta mál og velt því fyrir sér hvernig og hvort hann ætti aftur að koma inn í pólitík. Hann virtist nú hættur við það þar sem hann hefði krafist algjörrar samstöðu í flokknum um það. „Það verður miðstjórnarfundur á föstudaginn og flokksþing í haust. Mér finnst ekkert ólíklegt að það verði haldið fyrr, að framsóknarmenn segi að þeir geti ekki búið við þessa óvissu. Það er alltaf vont þegar beðið er eftir ákvörðunum og átök halda áfram," segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert