Kynna þarf frumvörp fyrir almenningi áður en þau eru lögð fram á Alþingi

Frá ráðstefnunni í dag.
Frá ráðstefnunni í dag. mbl.is/Jim Smart

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á ráðstefnu um verkefnið „Einfaldara Ísland" í dag, að stjórnvöld þyrftu í auknum mæli að kynna drög að frumvörpum og mikilvægum reglum fyrir almenningi áður en þau eru lögð fram á Alþingi.

Þannig sé hægt að tryggja að öll sjónarmið komi fram sem fyrst og jafnframt gefist þá betra ráðrúm til að leiðrétta misfellur. Þetta kalli aftur á skipulegri vinnubrögð í ráðuneytunum þannig að frumvörp séu ekki samin í hendingskasti á síðustu stundu eins og stundum vilji brenna við.

Halldór sagði að það væri hagur alls þjóðfélagsins að lagaramminn sé einfaldur og athafnafrelsinu ekki settar meiri hömlur en nauðsyn krefur. Það sé markmið stjórnvalda að tryggja áfram blómlega atvinnustarfsemi á Íslandi og þess vegna þurfi að gefa sjálfri reglusetningunni sérstakan gaum. Í þessu ljósi hafi ríkisstjórnin ákvað síðastliðið haust að hrinda af stað átaki sem kallað hefur verið „Einfaldara Ísland". Markmiðið sé í stuttu máli að grisja frumskóg hins opinbera regluverks og vanda betur til verka áður en ný lög eru sett.

„Alþingi hefur að sjálfsögðu síðasta orðið þegar um lagasetningu er að ræða. En það er staðreynd að mikill hluti þeirra laga sem samþykkt eru frá Alþingi eru runninn undan rifjum ráðuneytanna. Á skal að ósi stemma segir hið fornkveðna. Þess vegna er hvað vænlegast til árangurs að mínu mati að beina sjónum að tilurð frumvarpa í ráðuneytunum og hvort þar megi vanda betur til verka. Það má ekki heldur gleyma því að stór hluti hins opinbera regluverks er í formi reglugerða sem ráðherrar setja. Vissulega verður það ekki gert nema á grundvelli heimildar í lögum frá Alþingi en eigi að síður er um vald að ræða sem þarf að fara varlega með. Í hvert sinn sem ný regla er sett þarf að spyrja hvort hún sé virkilega nauðsynleg og liggja þarf ljóst fyrir hver verði tilkostnaður ekki bara ríkisins heldur einnig atvinnulífsins," sagði Halldór.

Hann sagði að um væri að ræða langtímaverkefni, sem muni spanna fjölda ára og einhvers staðar verður að byrja. Sagðist Halldór trúa því að hægt væri með tiltölulega einföldum og skjótum hætti, að koma fram umbótum í starfi ráðuneytanna sem skili sér í bættri löggjöf strax á þessu hausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert