Umhverfisráðherra friðar blesgæs og friðlýsir kúluskít

Sigríður Anna Þórðardóttir lætur af embætti umhverfisráðherra í dag.
Sigríður Anna Þórðardóttir lætur af embætti umhverfisráðherra í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, hefur ákveðið að friða blesgæs og friðlýsa kúluskít, sem er sérstakt vaxtarform grænþörungsins vatnaskúfs. Bæði þessi verkefni hafa verið til undirbúnings í ráðuneytinu um nokkra hríð, en Sigríður Anna hefur sem umhverfisráðherra lagt sérstaka áherslu á náttúruverndarmál, að því er segir í fréttatilkynningu.

Kúluskítur er friðlýstur að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og gildir friðlýsingin hvar sem hann vex villtur. Friðlýsingin felur í sér að bannað er að fjarlægja kúluskít af vaxtarstað á botni stöðuvatna, skaða eða skerða þörunginn eða botninn þar sem hann vex á einhvern þann hátt sem hindrað getur vöxt og viðgang hans.

Vatnaskúfur lifir í fersku vatni og finnst í nokkrum vötnum hér á landi, m.a. Mývatni, Þingvallavatni, Kringluvatni í Suður-Þingeyjarsýslu og Snjóölduvötnum á Héraði. Vatnaskúfur hefur þrjú mismunandi vaxtarform. Einfaldasta form þörungsins vex sem teppi lausra og gisinna þörungahnoðra. Annað vaxtarform er botnfast og vex einkum á skuggahlið steina. Þriðja vaxtarformið, kúluskítur, myndar þéttar og stundum stórvaxnar kúlur, allt að 15 cm í þvermál, sem sumstaðar mynda sérstakt samfélag. Samfélög svo stórvaxins kúluskíts eru aðeins þekkt í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og Akanvatni í Japan.

Friðun blesgæsarinnar er gerð í samræmi við tillögur Fuglaverndar og Skotvíss og studd umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Fyrirhuguð er kynning á friðuninni, sem lýtur ekki síst að því, að kenna veiðimönnum að greina blesgæs frá öðrum tegundum gæsa og benda þeim á hvar helst megi vænta blesgæsa, svo þeir geti forðast slík svæði eða farið sérstaklega varlega á þeim svæðum. Kynningin verður á vegum Umhverfisstofnunar í samráði við Náttúrufræðistofnun, Fuglavernd og Skotvís.

Nánar er fjallað um störf Sigríðar Önnu sem umhverfisráðherra í Morgunblaðinu í dag, en hún lætur af starfi umhverfisráðherra í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert