Ný rannsókn hafin á meintum skattalagabrotum forstjóra Baugs Group hf.: Boðaður í yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeild

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

NÝ rannsókn er hafin hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna meintra skattalagabrota Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group hf., og hefur Jón Ásgeir verið boðaður í yfirheyrslu hjá embættinu hinn 28. júní nk.

Upphæðir í þeim kæruefnum sem yfirheyra á vegna nema samtals rúmlega 194 milljónum króna. Við yfirheyrslurnar er meiningin að kynna Jóni Ásgeiri önnur kæruefni og áætlun um frekari yfirheyrslur vegna þeirra.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, upplýsti í gær við málflutning á frávísunarkröfu verjenda í þeim hluta Baugsmálsins sem nú er fyrir dómi að Jóni Ásgeiri hefði borist bréf sl. þriðjudag þar sem hann var boðaður í þessa yfirheyrslu.

Gestur sagði í samtali við Morgunblaðið að boðun í þessa skýrslutöku hefði komið sér og umbjóðanda sínum gersamlega í opna skjöldu. "Þetta kemur eins og blaut tuska í andlitið. Samkvæmt lögum ber að sameina í eina ákæru þau mál sem eru í gangi á hendur sama manni, svo ég tel að við höfum haft fulla ástæðu til að ganga út frá því að það væri ekkert svona í farvatninu."

Jón Ásgeir upplifir þetta mál sem hreint einelti, segir Gestur. "Það er með ólíkindum að þetta skuli berast sama dag og þetta mál er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Í mínum huga er þetta hrein misbeiting valds."

Í bréfinu kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi fengið til meðferðar kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur Jóni Ásgeiri og fleiri aðilum vegna meintra brota gegn skattalögum, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, og almennum hegningarlögum. Brotin eru talin tengjast Baugi Group hf., Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf. og Fjárfari ehf.

Í bréfinu kemur fram að ætlunin sé að yfirheyra Jón Ásgeir vegna þriggja kæruefna. Í fyrsta lagi vegna vantalinna þóknana frá Fjárfestingarfélaginu Gaumi, sem er fjölskyldufyrirtæki Jóns Ásgeirs, og fjölskyldu hans. Talið er að vantaldar þóknanir vegna sölu hlutabréfa tekjuárið 1998 nemi kr. 11.784.344.

Yfirheyrslurnar munu einnig snúast um meintan vantalinn söluhagnað að upphæð kr. 78.290.568. Að lokum verður spurt út í meinta vanframtalda greiðslu frá Gaumi 12. janúar 2001, að upphæð kr. 59.200.000.

Tryggvi Jónsson, sem er ákærður ásamt Jóni Ásgeiri í því máli sem nú er fyrir dómstólum, hefur ekki fengið boð um að mæta í yfirheyrslu, að sögn lögmanns hans. Þau Jóhannes Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir hafa ekki heldur verið boðuð í yfirheyrslu að sögn lögmanna þeirra, en þau voru ákærð í fyrsta hluta málsins og sýknuð þar af öllum ákærum.

Meint brot til rannsóknar í rúmt ár

JÓN H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, segir meint skattalagabrot Jóns Ásgeirs hafa verið til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeildinni í rúmt ár, undir sinni stjórn. Haft var eftir Hreini Loftssyni í Morgunblaðinu í desember 2004 að skattrannsóknarstjóri hafi lokið rannsókn sinni og sent málið til lögreglu um miðjan nóvember.

Jón H. vildi í gær ekki gefa upplýsingar um hvaða aðrir einstaklingar en Jón Ásgeir liggi undir grun í málinu og sagði það ekki sitt að upplýsa um það.

Jón Ásgeir vissi að skattrannsóknarstjóri hafði kært þessi brot til lögreglu, að sögn Jóns H. "Þetta er mál sem búið er að vera til meðferðar hjá skattayfirvöldum og þar þurftu viðkomandi að svara fyrir um það. Það var kært til lögreglu og um það vissu þeir, svo ég átta mig ekki á hvað er svona óvænt í þessu."

Spurður hvers vegna þetta mál hafi ekki verið rannsakað samhliða fyrri ákærum á hendur Jóni Ásgeiri sagði Jón H.: "Það eru ýmsar aðstæður sem eru einstakar í hverju máli, það er ekki víst að þetta varði sömu aðilana, þetta mál og hitt málið, og fólk í hinu málinu á ekki að þurfa að þola það að bíða eftir öðru máli sem kemur þeim ekki við."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert