Samkomulagi náð um kjarasamninga

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, og Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, og Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Morgunblaðið/ ÞÖK
Samkomulag náðist milli ríkisstjórnar og fulltrúa Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um kjarasamninga á fundi sem hófst kl. 18 í Ráðherrabústaðnum og lauk um hálftíma síðar. Skattleysismörk munu hækka í 90 þúsund krónur og verða verðtryggð og aldursmörk barnabóta verða færð í 18 ár úr 16. Fallist er á kröfu ASÍ um leiðréttingu vaxtabóta sem verður eftir á, líklega í haust.

Þá verða viðbótarfjármunir veittir í fræðslu- og menntamál ASÍ. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, og Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, skrifuðu undir samkomulag um breytingar á kjarasamningum um kvöldmatarleytið.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði að loknum fundinum að nú væri tryggt að hægt væri að ganga frá kjarasamningum. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist í viðtali við NFS sáttur við niðurstöður fundarins. Hætt verði við í bili við annað tekjuskattsprósentið til að fjármagna þessar framkvæmdir. Veruleg skattalækkun verði samt sem áður um áramótin, að sögn Geirs.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru þessar (fengið af vef Starfsgreinasambands Íslands):

Hækkun persónuafsláttar einstaklinga úr 29.029 krónum í 32.150, það er hækkun skattleysismarka úr 79 í 90 þúsund. Skattleysismörkin verða verðtryggð.

Endurskoðun á útreikningi vaxtabóta með tilliti til hækkunar á fasteignaverði.

Barnabætur verða greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára núna. Tekjuskattslækkun verði 1% um næstu áramót í stað 2% eins og fyrirhugað var.

Framlög til fullorðinsfræðslu og starfsmenntamála verði aukin á árinu 2007. Tekið verði á málefnum útlendinga á vinnumarkaði í samræmi við tillögur ASÍ og SA og nægjanlegt fjármagn tryggt til verkefnisins.

Grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta hækki um kr. 15.000 og að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækki í 185.400 kr. þann 1. júlí. Fyrirkomulag bótagreiðslna elli- og örorkulífsþega verður ákveðin í samræmi við fyrrgreindar hækkanir.

Síðast en ekki síst lofar ríkisstjórnin að hafa náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja til grundavallar samkomulagi þeirra, sérstaklega hvað varðar þróun verðlags.

mbl.is

Bloggað um fréttina