Kemur harðast niður á þeim sem minnsta kaupgetu hafa

mbl.is

Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, segir að sér lítist ekki á aðgerðir ríkisstjórnarinnar hvað varðar Íbúðalánasjóð og telur að með þessu sé verið að byrja á öfugum enda.

"Það sem vekur sérstaka athygli við þessa ráðstöfun er sú staðreynd að hámarkslán Íbúðalánasjóðs koma ekki að notum fyrir aðra en þá sem kaupa mjög ódýrt húsnæði. Allir þeir sem hafa keypt húsnæði fyrir 20 milljónir eða meira hafa snúið sér til annarra aðila hvort sem er. Svo má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd, þegar það er skoðað hvað hefur valdið þenslunni, að Íbúðalánasjóður hefur ekki lánað út til annarra nota en fasteignakaupa. Bankarnir hafa hins vegar dælt út peningum í skuldbreytingum og endurfjármögnunum. Peningum sem síðan hafa verið nýttir til þess að fjárfesta eða greiða aðrar skuldir," segir Björn Þorri og bendir jafnframt á að þessi aðgerð komi harðast niður á þeim sem hafi minnstu kaupgetuna og séu að kaupa ódýrustu íbúðirnar.

"Ég veit ekki betur en að nú séu hvergi til í landinu 90% lán eftir að Íbúðalánasjóður lækkaði lánshlutfallið niður í 80%. Í raun og veru er þetta stórt skref til fortíðar að því leytinu til að nú er hámarkslánshlutfall á íbúðalánamarkaði orðið lægra en það var þegar bankarnir gáfu fyrirheit og loforð um nútímalegan fasteignamarkað."

Aðspurður segir Björn Þorri það ljóst að fasteignaverð eigi eftir að lækka í kjölfarið.

"Það er alveg ljóst í mínum huga að samstilltar ákvarðanir banka og stjórnvalda um minnkandi aðgengi að lánsfjármagni og hækkun vaxta leiða til þess að eftirspurn á húsnæðismarkaði minnkar. Þegar eftirspurn minnkar og framboð helst mikið, eins og útlit er fyrir, mun það auðvitað leiða til lækkunar á markaðnum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert