Mengunarslysið á Eskifirði: Einn á gjörgæslu á Akureyri

mbl.is/Helgi Garðarsson

Einn maður er á gjörgæslu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) eftir slysið í sundlauginni á Eskifirði í gær eftir að klórgas myndaðist þegar ediksýru var hellt fyrir mistök í klórtank. Að sögn Þorvaldar Ingvarssonar, framkvæmdastjóra lækninga á FSA, voru tveir menn fluttir á sjúkrahúsið frá Eskifirði í gær. Annar mannanna er á lyfjadeild en hinn er eins og segir á gjörgæslu. Líðan mannsins á lyfjadeildinni er góð að sögn Þorvaldar en hinn maðurinn er ennþá undir eftirliti.

Um þrjátíu manns voru fluttir á sjúkrahús í gær eftir eiturefnaslysið, aðallega börn og unglingar. Fyrst voru allir fluttir á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað en þaðan voru fjórir, þar af þrjár ungar stúlkur, fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík og tveir til Akureyrar. 12 voru á sjúkrahúsinu á Neskaupstað í nótt og var líðan þeirra stöðug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert