Benedikt Lafleur syndir gegn mansali

Benedikt greinir frá fyrirætlunum sínum á blaðamannafundi í dag.
Benedikt greinir frá fyrirætlunum sínum á blaðamannafundi í dag. mbl.is/ RAX

Sjósundkappinn Benedikt S. Lafleur ætlar að synda yfir Ermasund dagana 30. ágúst til 5. september undir yfirskriftinni „Synt gegn mansali – til varnar sakleysinu“. Fyrst mun Benedikt synda Reykjavíkursund og er hægt að heita á hann. Áheitaféð rennur í sjóð á vegum Lafleur ehf: Sjóð Sakleysis.

Tilgangur sjóðsins er að styðja þau eða það félag sem með árangursríkum hætti spornar gegn mansali, kynferðislegri misnotkun á börnum og útbreiðslu kláms, bæði hér á landi sem erlendis.

Benedikt setur fram eftirfarandi kröfur: Að ríkisstjórn Íslands fullgildi samning Evrópuráðsins gegn mansali; að allur almenningur, jafnt konur sem karlar, axli siðferðislega ábyrgð á viðhorfum sínum til kynlífs með meðvitaðri breytni og í þriðja lagi að fræðsla um mansal og aðra skuggahliðar alþjóðlegrar klámvæðingar verði stóraukin á öllum sviðum samfélagsins, eins og segir á vefsíðu vegna sundsins.

Reykjavíkursundið verður 22. og 23. júlí. Hægt er að lesa nánar um sundið með því að smella á tengil með fréttinni.

Lafleur syndir gegn mansali

mbl.is