Frávísun héraðsdóms í Baugsmálinu kærð til hæstaréttar: Óvíst hvenær niðurstaða liggur fyrir

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, hefur kært frávísun héraðsdóms Reykjavíkur á fyrsta ákærulið af nítján, í endurákæru málsins, til Hæstaréttar. Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenberger kærðu í kjölfarið ákvörðun héraðsdóms um að hafna kröfu um frávísun málsins í heild sinni.

Síðastliðinn föstudag var fyrsta ákæruliðnum í endurákærunni vísað frá dómi þar sem ekki þótti koma nógu skýrt fram hvernig atburðarásin, sem þar er lýst, brjóti gegn lögum. Þar er Jón Ásgeir sakaður um fjárdrátt, en til vara umboðssvik.

Sigurður Tómas sagði í samtali við Morgunblaðið að ákvörðunin hefði verið tekin að vel íhuguðu máli og að það hefði verið metið sem svo að grundvöllur væri fyrir kæru. Óljóst er hvenær kæran verður tekin fyrir.

Verjendur kærðu einnig

"Það er vissulega óljóst og undir Hæstarétti komið hvað þeir þurfa langan tíma. Það fer eftir því hvernig þeir meta þörfina á þessu, hvort þeir afgreiða þetta innan skamms eða einhvern tíma í haust," sagði Sigurður Tómas sem vonast eftir því að fá niðurstöðu Hæstaréttar sem allra fyrst.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, og Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, kærðu einnig úrskurð héraðsdóms frá sl. föstudegi. Þeir höfðu krafist þess að málinu yrði vísað frá í heild sinni þar sem alvarlegir ágallar væru á rannsókn málsins - en því var hafnað.

Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds Sullenberger, kærði jafnframt ákvörðun Arngríms Ísbergs héraðsdómara en Brynjar hafði krafist frávísunar málsins fyrir skjólstæðing sinn og rökstuddi kröfuna með því að tekin hafi verið sú ákvörðun við rannsókn málsins að ákæra ekki Jón Gerald.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert