Hvatti til afnáms skaðlegra niðurgreiðslna

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hvatti til afnáms á niðurgreiðslum sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið og til aukinnar þátttöku atvinnulífsins í baráttu gegn loftslagsbreytingum á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Turku í Finnlandi um helgina. p> Fundurinn var haldinn að frumkvæði Finna í tilefni þess að Finnar hafa tekið við formennsku í Evrópusambandinu og vilja kynna hugmyndir sínar um „nýja kynslóð” stefnumiða í umhverfismálum. Fundinn sóttu umhverfisráðherrar 25 aðildarríkja ESB, en einnig var ráðherrum frá EFTA-ríkjunum, Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss, boðin þátttaka, sem og frá fjórum ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB.

Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu segir, að í hugmyndum Finna komi fram að ör hnattvæðing geri það að verkum að stefnumörkun og lagasetning ESB og einstakra Evrópulanda þurfi að hafa hnattræna sýn, en ekki einungis á áhrifin á innri markað ESB. Vaxandi eftirspurn eftir orku, áframhaldandi notkun á jarðefnaeldsneyti og ágangur á ýmsar náttúruauðlindir kalli á nýja hugsun og umhverfisvænni tækni, þar sem hægt sé að skapa atvinnu og bæta lífsgæði jafnhliða því sem álag á náttúrugæði minnkar. Leiðir til slíks séu m.a. umhverfisvæn innkaup, efnahagslegir hvatar, niðurfelling umhverfisskaðlegra niðurgreiðslna og sterkari alþjóðastofnanir á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar.

Jónína tók í ræðu undir sjónarmið um afnám á umhverfisskaðlegum niðurgreiðslum, m.a. í sjávarútvegi, sem hvettu til ofnýtingar náttúruauðlinda í stað sjálfbærrar nýtingar þeirra til langs tíma. Hún sagði að hnattvæðingin kallaði á nýja hugsun í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þar sem skoða mætti hvort hægt væri að setja markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda fyrir einstakar atvinnugreinar, í viðbót við markmið fyrir losun einstakra ríkja. Í heimi þar sem atvinnustarfsemi ætti æ auðveldara með að færa sig um set þyrftu fyrirtæki og atvinnulífið í vaxandi máli að axla ábyrgð og vinna með stjórnvöldum að glíma við loftslagsvandann.

Bágt ástand Eystrasaltsins
Finnar kynntu einnig á fundinum bágt ástand Eystrasaltsins, sem stafar ekki síst af mengun af völdum næringarefna og þörungablóma, sem skaðar fiskistofna og annað lífríki. Aðgerðir til að bæta ástand umhverfisins í Eystrasalti kallar á náið samstarf þeirra mörgu ríkja sem liggja að hafinu og hertar umhverfiskröfur, m.a. í ljósi þess að búist er við að skipaumferð kunni að tvöfaldast á Eystrasaltinu á næstu tíu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert