Stúdentaráð lýsir óánægju með skerðingu á þjónustu Strætó bs.

Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir óánægju sinni með þá ákvörðun borgaryfirvalda að draga úr þjónustu Strætó bs. með því að leggja niður stofnleið 5 og fækka ferðum á álagstímum. Segir Stúdentaráð, að þessi ákvörðun bitni sérstaklega illa á námsmönnum, en þeir séu stór hluti af viðskiptavinum Strætós.

Í ályktun frá SHÍ segir, að stofnleið 5 hafi þjónustað íbúa Árbæjar. Eftir að leiðin hafi verið lögð niður megi áætla að ferðatími stúdents frá Seláshverfinu til Háskóla Íslands tvöfaldist, svo dæmi sé tekið. Eins sé sú ákvörðun borgarstjórnar að fækka ferðum stofnleiða á álagstímum ótæk, en mikil ánægja hafi ríkt meðal námsmanna með þá nýjung þegar hún var kynnt á síðasta ári.

„Stúdentaráð leggur til að í septembermánuði verði ókeypis í Strætó. Þannig gefst borgarbúum betra tækifæri til að kynnast þessum samgöngumáta. Þar að auki myndi draga úr álagstoppum sem myndast alltaf á haustin þegar skólarnir byrja og meirihluti vinnuafls er kominn úr sumarfríi, en skv. skýrslu Hönnunar um samgönguskipulag í Reykjavík eykst heildarumferð að meðaltali um 19% í september. Nýir viðskiptavinir sem gætu unnist í þeim mánuði munu vonandi halda áfram að nýta sér þjónustuna eftir að gjaldtaka hefst að nýju í október," segir í ályktun SHÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina