„Ekki stór hluti af málinu í heild“

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmáli.
Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmáli. Eyþór Árnason

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, segir það vissulega nokkuð áfall að fyrsta ákærulið nýrrar ákæru í málinu hafi verið vísað frá í Hæstarétti í dag, en segir liðinn þó aðeins einn af 19. „Það má alltaf búast við þessu þegar sakarefnin eru flókin og umfangsmikil, að þá finnist ekki rétta leiðin. Þetta var stærsti einstaki liðurinn en þetta er ekki stór hluti af málinu í heild,“ sagði Sigurður Tómas í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag. Engu sé bætt við það sem héraðsdómarinn var með og ekkert við því að segja.

Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenbergers kærðu einnig ákvörðun héraðsdóms um að hafna kröfu um frávísun málsins í heild sinni en Hæstiréttur vísaði þeirri kæru frá. „Ég legg mikla áherslu á það að það voru margvíslegar málsástæður sem þeir komu með gegn málatilbúnaði ákæruvaldsins og þessu hefur öllu verið hafnað, nema fyrsta ákærulið. Ákæruvaldið er í sjálfu sér sátt við það að málið sé á leið í efnismeðferð að langstærstum hluta,“ segir Sigurður Tómas.

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, vísaði fyrsta ákæruliðnum af 19 í endurákærunni frá dómi þar sem ekki þótti koma nógu skýrt fram hvernig atburðarásin, sem þar er lýst, brjóti gegn lögum. Þar var Jón Ásgeir sakaður um fjárdrátt, en til vara umboðssvik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert