Gestur Jónsson: Ánægður með frávísun viðamesta ákæruliðarins

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. mbl.is

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu, segist gríðarlega ánægður með þann úrskurð Hæstaréttar að vísa frá 1. kærulið nýrrar ákæru í Baugsmálinu. Þessi liður hafi verið sá viðamesti í ákærunni, jafnan sagður kjarni hennar.

Verjendur Jóns Ásgeirs, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenbergers kærðu einnig ákvörðun héraðsdóms um að hafna kröfu um frávísun málsins í heild sinni en Hæstiréttur vísaði þeirri kæru frá. „Það er þannig samkvæmt lögum að það er ekki heimilt að kæra höfnun á frávísun en við gerðum það hins vegar, þrátt fyrir það lagaákvæði, og óskuðum eftir því að það yrði heimilað vegna þess að ákæruvaldið var búið að kæra frávísunina sem slíka. Hæstiréttur hafnaði því, þannig að sá hluti málsins kom ekki til skoðunar,“ sagði Gestur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.

Gestur segir að það hafi ekki verið farið inn í þann hluta málsins sem varðar frávísun málsins alls, það komi til skoðunar ef málið komi í framtíðinni til ákvörðunar hjá Hæstarétti. Það sé hægt að kæra frávísun máls og hugsunin bakvið það sé sú að það sé endanlegt og málið úr sögunni, nema að heimilt sé að kæra það til Hæstaréttar. „Þessi hæstarréttardómur er bara um það að kæruheimildin sé ekki fyrir hendi,“ segir Gestur.

„Næsta skref í þessu máli er væntanlega það að héraðsdómarinn kallar til þinghalds líklega eftir réttarhlé í september, hann ákveður það sjálfur, og þá verður þetta mál í því breytta horfi sem það er. Langstærsti hluti málsins er frá með þessum dómi Hæstaréttar, til dæmis hafði ákæruvaldið lagt fram lista yfir 80 vitni sem það hugðist leiða við aðalmeðferðina. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að meira en helmingur vitnanna tengdist þessum ásökunum í ákærulið 1, þannig að nú snarminnkar umfang málsins. Síðan fer þetta væntanlega til aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi á þeim tíma sem dómari ákveður,“ segir Gestur.

Gestur segir þá 18 ákæruliði sem eftir eru flesta varða svokölluð formbrot, þ.e. brot sem hafi ekki valdið öðrum fjártjóni eða haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir aðra en þá ákærðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert