Arngrímur: Ekki hrifinn af birtingu álagningarskráa

Arngrímur Jóhannsson.
Arngrímur Jóhannsson. mbl.is/Þorkell

Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta og gjaldahæsti einstaklingur landsins, samkvæmt álagningarskrám sem skattstjórar lögðu fram í dag, segist lítið vilja tjá sig um þann titil að vera „skattakóngur“ landsins í ár og segist ekki hrifinn af þeim sið að birta álagningarskrár almenningi. Arngrímur segir þær tölur sem birtar eru segja frekar lítið, þó fram komi að hann sé með hæstu skattana þýði það ekki að hann sé með hæstu tekjurnar.

„Það eru margir sem eru að dreifa þessu og velta þessu á undan sér í öðrum fyrirtækjum og fleiru en ég ákvað, af því ég er orðinn þetta gamall, að taka bara slaginn strax,“ sagði Arngrímur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.

Arngrímur hefur oft áður verið meðal hæstu skattgreiðenda landsins. Hann var hæsti skattgreiðandi í Reykjanesumdæmi í fyrra, en hann hefur aldrei áður verið skattakóngur landsins. Arngrímur tók fram að hann ætti áfram hlut í Avion Group og sæti í stjórn félagsins.

„Ég er hættur að vinna, en ég þarf ekki á meiru að halda í ellinni,“ sagði Arngrímur í samtali við Morgunblaðið í dag. „Það er hægt að fresta skattgreiðslum með því að fjárfesta í öðrum félögum, en ég tók þá ákvörðun að greiða þessa skatta strax frekar en að dreifa þessu á fleiri ár.“ Meirihluti gjaldanna hafi verið vegna sölu á hlutum í Avion Group.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert