Stúlka send á neyðarmóttöku eftir nauðgunartilraun á þjóðhátíð

mbl.is/Sigurgeir

Ein stúlka var send til neyðarmóttöku kynferðisofbeldis í Reykjavík í morgun vegna nauðgunartilraunar sem hún varð fyrir í nótt. Lögreglan í Vestmannaeyjum segir, að kærur á þjóðhátíð séu enn mjög fáar, engar líkamsárásarkærur hafi borist eftir nóttina og þrátt fyrir þrotlausa leit um 8 fíkniefnalögreglumanna og 3 leitarhunda hafi einungis komið upp 6 minniháttar fíkniefnamál frá fimmtudagsmorgni.

Lögreglan segist telja, að minna berist af fíkniefnum til Eyja en mörg undanfarin ár. Hátíðargestir séu vel búnir að mati lögreglu og lítið um vosbúð gesta Í nótt var nokkur vindur og rigningarsúld á hátíðarsvæðinu og klukkan 5 í morgun var íþróttahúsið opnað og gistu þar u.þ.b. 30 manns þar í góðu yfirlæti.

Á daglegum samráðsfundi lögreglu með stjórnendum á hátíðarsvæðinu kom fram að rólegt var á læknavaktinni í dalnum, miklu minna en undanfarin ár, nokkrir sneru sig og einn var sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi til Reykjavíkur vegna fótbrots en aðrir þurftu á minniháttar aðhlynningu að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert