Fjórir á sjúkrahús eftir umferðarslys á Vesturlandsvegi

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús á Akranesi eftir umferðarslys á Vesturlandsvegi, skammt frá Beitistöðum, um klukkan þrjú í dag. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi varð óhappið með þeim hætti að jeppi fór út af veginum og mun hann hafa oltið nokkrar veltur. Ökumaður jeppa sem hafði ekið fyrir aftan jeppann sem fór út af, hægði á ferðinni en við það var fólksbíl ekið aftan á jeppann. Talið er að ökumaður jeppans sem valt sé fótbrotinn en hinir virtust minna slasaðir.

mbl.is