Hvenær er nóg komið?

Eftirfarandi athugasemd hefur borist Morgunblaðinu frá Gesti Jónssyni, lögmanni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar:

    Hinn 30. júní sl. vísaði Arngrímur Ísberg héraðsdómari frá dómi ákæru sérstaks ríkissaksóknara á hendur skjólstæðingi mínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni um fjársvik og til vara umboðssvik í tengslum við kaup Baugs á 10/11 verslunarkeðjunni á árunum 1998 og 1999. Í forsendum dómsins er sagt að í ákærunni sé ekki lýst auðgunarbroti heldur viðskiptum. Frávísunarúrskurður Arngríms var staðfestur af Hæstarétti 21. júlí sl. Staðfestingin var byggð á sömu forsendum og niðurstöður héraðsdómarans.

    Þetta var í annað skipti sem Hæstiréttur staðfesti frávísun héraðsdóms á ákæru á hendur Jóni Ásgeiri vegna kaupa Baugs á 10/11 verslununum. Það sama gerðist 10. október 2005 eins og mörgum er í fersku minni.

    Við málflutning fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní sl. lagði Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur ríkissaksóknari, mikla áherslu á að þessum lið ákærunnar yrði ekki vísað frá dómi. Gat þess sérstaklega að hann sæi ekki að ákært yrði í þriðja sinn vegna kaupa Baugs á 10/11 verslununum yrði ákæruliðnum aftur vísað frá dómi. Þessu lýsti hann yfir við flutning málsins, fyrir framan dómara málsins, að viðstöddum verjendum og fjölda annarra áheyrenda.

    Nú má skjólstæðingur minn lesa það í Morgunblaðinu að sérstakur ríkissaksóknari sé að gera það upp við sig hvort hann eigi að ákæra í þriðja sinn vegna atvika sem dómarar á tveimur dómstigum hafa sagt að séu viðskipti en ekki auðgunarbrot.

    Það er mikilvægt að ákæruvaldið fari varlega í beitingu þess mikla valds sem því hefur verið trúað fyrir. Það eru örugglega til mikilvægari verkefni í réttarvörslunni á Íslandi en að ákæra Jón Ásgeir Jóhannesson í þriðja sinn fyrir að hafa átt stærstan hlut í kaupum Baugs á 10/11 verslunarkeðjunni fyrir átta árum. Kaup sem hafa reynst Baugi góð og arðsöm fjárfesting.

    Er ekki mál að linni?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert