Breyta þarf lögum til að tryggja konunum öryggi

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is
Breyta þarf lögum svo erlendar konur sem flust hafa hingað til lands og sætt ofbeldi af hálfu eiginmanna sinna, geti forðað sér frá ofbeldinu, að sögn Sabine Leskopf, stjórnarmanns í Samtökum kvenna af erlendum uppruna. Samtökin hafa sent frá sér ályktun þar sem þau mótmæla harðlega „brottvísun fjölda erlendra kvenna sem ekkert hafa til saka unnið annað en að forða sér frá ofbeldisfullum eiginmönnum sem skáka í skjóli óréttlátra laga og harkalegrar stjórnsýslu".

Fyrsta maí í ár var íslenskur vinnumarkaður opnaður fólki frá átta nýjustu aðildarríkjum ESB og þá ítrekuðu stjórnvöld forgang EES-borgara að íslenskum vinnumarkaði. Sabine segir að fyrir þennan tíma hafi staða þeirra kvenna sem skilið höfðu við ofbeldisfulla eiginmenn vissulega verið erfið, enda lögum samkvæmt hægt að vísa þeim úr landi. Hins vegar hafi málunum alltaf verið bjargað og eftir því sem hún viti hafi engri konu í þessari stöðu verið vísað úr landi fyrir 1. maí.

Samtökunum hafi þó aldrei fundist þetta duga og að mati þeirra sé vandinn sá að margar konur þori ekki að koma fram vegna þess að eiginmenn hafi ákveðin vopn í hendi gegn þeim. Þeir geti sagt konunum að ef þær fari frá þeim muni lög leyfa að þeim verði vísað úr landi. Nú sé staðan mjög erfið því "Vinnumálastofnun segir bara að hún fari eftir reglunum, fólk af Evrópska efnahagssvæðinu hafi forgang og allir sem koma frá löndum utan þess fá ekki leyfi hér," segir Sabine.

Málið tvisvar sinnum sofnað í nefnd

Hún segir að Vinstri grænir hafi á Alþingi tvisvar sinnum lagt til að lögum yrði breytt þannig að þessar konur fengju undanþágu. Málið hafi hins vegar í bæði skiptin sofnað í allsherjarnefnd.

"Það hefur ekki einu sinni verið rætt. Og það er nokkuð sem okkur finnst ekki í lagi að þessi hópur sé greinilega ekki nógu spennandi til þess að ræða málefni hans. Við viljum breytingar á þessum lögum til þess að skapa öryggi," segir Sabine. Nauðsynlegt sé að þessu verði breytt sem fyrst.

Málin skoðuð í dóms- og félagsmálaráðuneyti

Ekki náðist í Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vegna málsins í gær. Þær upplýsingar fengust hjá Guðmundi Páli Jónssyni, aðstoðarmanni ráðherra, að það væri til skoðunar í dóms- og félagsmálaráðuneyti og væri niðurstöðu að vænta í vikunni. Guðmundur Páll segir að verið sé að fara yfir verklagsreglur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: