Heiðraður fyrir frammistöðu sína í Írak

Hjalti Ragnarsson með viöurkenningar sínar.
Hjalti Ragnarsson með viöurkenningar sínar. mynd/bb.is

Hjalti Ragnarsson, sem þjónar í danska hernum, hefur verið heiðraður fyrir framúrskarandi frammistöðu á vígvöllum Íraks auk þess sem hann hlaut viðurkenningu fyrir að hafa slasast í orrustu en halda samt áfram út herþjónustutímann.

Hjalti var í gær heiðraður af yfirhershöfðingja Konunglega Dönsku lífvarðarsveitarinnar fyrir framúrskarandi frammistöðu á vígvöllum Íraks. Einnig hlaut hann viðurkenningu fyrir að hafa slasast í orrustu en halda samt áfram út herþjónustutímann. Að sögn Ragnars Haraldssonar föður hans er Hjalti nú kominn með fleiri heiðursmerki og orður en margir af yfirmönnum hans.

Hjalti er nýkominn heim eftir að hafa sinnt herþjónustu hjá danska hernum, meðal annars í Írak frá því í febrúar þar sem hann lenti í ýmsum þrekraunum. Strax eftir athöfnina var hann sendur af hernum til Borgundarhólms með einn látinn hermann úr hans deild sem svipti sig lífi og er það rakið til þess álags sem var á dönsku hermönnunum í Írak.

Hjalti bjó sem barn á Ísafirði en flutti af landi brott 6 ára gamall ásamt foreldrum sínum Ragnari Haraldssyni og Sigríði Þórðardóttur og bræðrum sínum Gísla og Ingólfi, en hann á mörg skyldmenni á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert