Árni uppfyllir skilyrði fyrir uppreist æru samkvæmt dómsmálaráðuneytinu

Árni Johnsen
Árni Johnsen

Vegna fréttar í Fréttablaðinu 30. ágúst 2006 um uppreist æru fyrir Árna Johnsen vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið taka fram, að um langt árabil hefur undantekningarlaust verið gerð tillaga til forseta Íslands um uppreist æru, ef umsækjandi fullnægir lögformlegum skilyrðum um, að hún sé veitt. Í því samhengi skiptir eðli brots eða sakaferill ekki máli, því að eingöngu er litið til þess, hvort skilyrði séu uppfyllt.

Meginreglan um uppreist æru, eins og hún hefur verið framkvæmd undanfarna áratugi, er í 3. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt henni er hægt að veita uppreist æru að liðnum 2 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin.

Í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að Árni Johnsen var með dómi Hæstaréttar 6. febrúar 2003 dæmdur í 2 ára óskilorðsbundna refsivist. Eins og reglur um uppreist æru hafa verið túlkaðar telst refsing að fullu úttekin á þeim tíma er reynslulausn er veitt, ef viðkomandi stenst skilorð.

Þessi túlkun er í samræmi við ummæli í greinargerð með lögum nr. 16/1976 sem breyttu almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og hefur einnig verið staðfest í 4. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Liðin eru rúm 2 ár frá því að Árni tók refsingu út að fullu og telst hann því uppfylla lögformleg skilyrði til að hljóta uppreist æru.

Bent skal á til útskýringar, vegna athugasemda lesenda, að ,,uppreist" er gamalt orð sem þýðir hið sama og ,,uppreisn", en ráðuneytið notar eldra orðið. Árni hlýtur því bæði uppreist æru og uppreisn æru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert