Umsóknum um uppreisn æru hefur fækkað á undanförnum árum

Árni Johnsen.
Árni Johnsen. Sverrir Vilhelmsson

Dómsmálaráðuneytið segir umsóknum um uppreisn æru hafa fækkað frá árinu 1999, en á árunum 1996 til 1999 hafi níu fengið slíka meðferð. Samkvæmt málaskrá ráðuneytisins var tvisvar sinnum veitt uppreisn æru árið 1996, fimm sinnum árið 1997 og tvisvar sinnum árið 1999. Upplýsingarnar sendir ráðuneytið frá sér vegna fyrirspurna fjölmiðla í kjölfar uppreisnar æru Árna Johnsen.

Fjöldi innkominna mála, þar sem óskað var eftir uppreisn æru frá árinu 2001 til 1. júlí 2006 eru eftirfarandi:

2001: 2 mál skráð

2002: 0 mál skráð

2003: 1 mál skráð

2004: 1 mál skráð

2005: 2 mál skráð

2006: 2 mál skráð fram til 1. júlí 2006.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að það að mál hafi verið skráð þýði ekki að því hafi lokið með formlegri afgreiðslu, jákvæðri eða neikvæðri. „Margar ástæður geta verið fyrir þessu. Í fyrsta lagi getur þetta verið vegna þess að í ljós hefur komið að refsing sú sem óskað var uppreistrar æru á hafði ekki flekkun mannorðs í för með sér, og því ekki tilefni til að aðhafast frekar í máli.

Í öðru lagi hefur að umsækjandi hafi ranglega talið sig vera með refsingu á sakavottorði sínu.

Í þriðja lagi er ekki tilefni til að veita formlega uppreist æru, þegar hún hefur fengist sjálfkrafa nema viðkomandi hafi óskað þess sérstaklega, sbr. 84. gr. almennra hegningarlaga, þegar um er að ræða eina refsingu sem ekki fer fram um eins árs refsivist og liðin eru a.m.k. fimm ár frá því refsing var að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin.

Í fjórða lagi hefur athafnaleysi umsækjanda um að leggja fram öll tilskilin gögn með umsókn sinni leitt til þess að málum hefur verið lokið án formlegrar afgreiðslu.

Uppreist æru leiðir ekki til að refsing sé tekin út af opinberu sakavottorði (stofnskrám) heldur aðeins að við bætist ný færsla aftan við viðkomandi refsingu þar sem tilgreint er að uppreist æru hafi verið veitt.

Þá ber þess að geta að aðeins í einu tilviki sem komið hefur upp frá 2001 hefur verið synjað um uppreist æru og þá með vísan til þess að tímaskilyrði um að liðin væru a.m.k. 2 ár frá því refsing væri að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, voru ekki uppfyllt."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert