Hraðakstur í Arnarbakka

Lögreglan í Reykjavík hefur haldið uppi töluverðu umferðareftirliti við grunnskóla borgarinnar frá því að þeir tóku til starfa eftir sumarleyfi. Lögreglumenn á bifhjólum voru við hraðamælingar í Arnarbakka í Breiðholti. Þar er mikil umferð og ekki síst gangandi vegfarenda en þarna fer hópur skólabarna um á hverjum degi.

Í frétt frá lögreglunni í Reykjavík kemur fram að ekki virtust ökumenn taka neitt sérstakt tillit til þess því tíu voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Nær allir þeirra, eða níu, óku á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða sem er 30 km. Hinir sömu eiga nú yfir höfði sér ökuleyfissviptingu og fjársekt að auki.

mbl.is