Krefst gagna um símahleranir

Beðið um gögn um símahleranir
Beðið um gögn um símahleranir Mbl.is/Arnaldur

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri og alþingismaður, spyr Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag hvort hún geti tryggt honum aðgang að gögnum um símahleranir stjórnvalda á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eigi hann rétt á aðgangi að gögnunum og fái hann ekki jákvæð svör á næstu dögum í þessum efnum verði hann að leita réttar síns hjá dómstólum.

Kjartan rifjar upp að í vor hafi Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur lagt fram óyggjandi gögn um hleranir stjórnvalda hjá stjórnarandstæðingum á þessum tíma og þar á meðal séu verulegar líkur á að heimasími hans hafi verið hleraður. Heimildir til hlerana hafi verið fengnar með tilvísan til öryggis landsins sem jafngildi því að þeir sem hlerað hafi verið hjá hafi verið sakaðir um landráð.

"Nú skyldi maður halda að hver sá sem fyrir slíku verður af hálfu dómsmálaráðuneytisins í heimalandi sínu, án þess þó að hafa nokkru sinni verið ákærður eða dæmdur, eigi 40 árum síðar rétt á að sjá öll gögn sem málið varða og enn eru varðveitt. Mörg okkar sem hlerað var hjá á fyrrnefndum árum eru nú látin en við sem eftir lifum viljum fá öll gögnin til skoðunar. Við viljum sjá hvernig dómsmálaráðuneytið rökstuddi hinar þungu ásakanir sínar í okkar garð, hvernig sakadómur rökstuddi leyfisveitinguna og ekki síst með hvaða hætti upptökum af einkasímtölum okkar var ráðstafað."

Kjartan segir að gögnin séu geymd á Þjóðskjalasafni og honum hafi í tvígang í sumar verið neitað um aðgang að þeim, bæði um frjálsan aðgang og einnig um aðgang að þeim með sömu skilmálum og sagnfræðingurinn, þótt hann hafi reyndar einnig háskólapróf í sagnfræði. Þess vegna spyrji hann ráðherra tveggja spurninga sem æðsta yfirmann safnsins

"1. Telur ráðherrann að það geti samrýmst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mér, sem hef lögvarinna hagsmuna að gæta og hef reyndar háskólapróf í sagnfræði, sé neitað um sams konar aðgang að umræddum gögnum og annar sagnfræðingur hefur fengið?

2. Telur ráðherrann sig hafa möguleika á að tryggja mér nú á næstu dögum þann rétt sem jafnræðisregla stjórnarskrárinnar veitir mér til aðgangs að umræddum gögnum um símahleranir á árunum 1949-1968?"

Sjá nánar á bls. 38 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »