Hálslón myndast

Hálslón, meginlón Kárahnjúkavirkjunar hóf að myndast í morgun þegar lokað var fyrir hjárennslisgöng Jökulsár á Dal, sem veitt hafa ánni hjá stíflunni. Voru lokurnar tvær látnar síga niður en síðan steypt í lokuraufar, fylling Hálslóns var þá orðin staðreynd. Nokkur fjöldi fjölmiðlafólks og fulltrúa virkjunaraðila safnaðist saman í hryssingslegu veðri á gljúfurbarminum ofan við lokurnar til að fylgjast með. Vatn safnast nú nokkuð hratt í lónið þar sem það er dýpst við Kárahnjúkastíflu og er búist við því að lónið verði orðið um 15 metra djúpt upp úr hádegi.

Í kjölfar þess að lokurnar voru látnar síga mátti sjá hvernig Jökulsá á Dal breyttist og varð lygn við það að streymi hennar stöðvaðist. Í kjölfarið flæddi yfir lokuopin og svo veginn sem liggur niður að þeim.

Ekki reynir þó enn á stífluna sjálfa þar sem gljúfrið er nokkuð djúpt, en líklegt þykir að vatnið nái hæð stíflunnar, svokölluðum távegg á næstu tveimur til þremur dögum. Enn standa yfir steypuframkvæmdir efst á stíflunni, en stefnt er að því að allri vinnu verði lokið við hana um miðjan desember.

Meginframkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun lýkur um mitt næsta ár, en unnið verður að hreinsunarframkvæmdum allt fram til ársins 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert