Frost mældist ekki á hitamælum

Brynjar Gauti

Frost var við jörð á höfuðborgarsvæðinu í morgun og þurftu ökumenn að skafa hrím af rúðum bíla sinna. Frost mældist þó ekki á veðurmælum samkvæmt upplýsingum Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Á mæli Veðurstofunnar, sem er í tveggja metra hæð, fór hiti lægst í + 0,2 gráður í nótt sem Haraldur segir mjög eðlilegt miðað við árstíma.

Samkvæmt veðurspá sem gerð var í morgun má búast við að svalt verði á landinu á næstu dögum en þó sennilega ekki frost. Frekar róleg austlæg átt er nú á landinu með rigningu suðaustanlands. Þá má búast við einhverri vætu norðan- og vestanlands síðdegis í dag. Hiti verður fimm til átta stig.

mbl.is