Íslenska ríkið verður kært fyrir brot á Mannréttindasáttmála Evrópu

Baugsmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Baugsmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, greindu frá því í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að bréf hafi verið sent Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem boðuð sé kæra á hendur íslenska ríkinu á grundvelli 6. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu.

Kæran sé byggð á því að Jóni og Tryggva hafi ekki verið veitt réttlát málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum og ekki virtar grundvallarreglur um réttarríki og réttaröryggi. Þá sé einnig byggt á því að málið hafi ekki verið rekið innan hæfilegs tíma og brotið á rétti Jóns og Tryggva með ummælum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og Sigurðar M. Tómassonar, setts ríkissaksóknara, í fjölmiðlum.

Þá var í dag lagt fram mat sérfræðinga á því hvort tölvupóstar sem lagðir hafa verið fram í málinu geti mögulega verið falsaðir, en ekki farið út í efnisatriði þess. Matsgerðin á tölvupóstunum var unnin að beiðni lögmanna tveggja ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, samkvæmt úrskurði héraðsdóms frá því í lok maí sl. Tekist var á um hvenær aðalmeðferð ætti að verða og vildu verjendur bíða eftir því að dómur Hæstaréttar félli í því sem eftir stendur af upphaflegum ákærum í málinu. Þeir telja sig hafa heimildir fyrir því að það verði í byrjun næsta árs.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, sagði ekkert því til fyrirstöðu að gefa verjendum þann tíma sem þeir þyrftu til að undirbúa varnir en að ekki þyrfti að bíða sérstaklega eftir dómi Hæstaréttar. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, telur tengsl málanna þannig að það verði að bíða eftir dóminum.

Gestur fór fram á það í dag að haldið yrði sérstakt þinghald í dómnum til að ræða vitnalistann sem ákæruvaldið lagði fram í dag. Hann vill að farið verði yfir um hvað hvert vitni eiga að bera, til að átta sig á því hver þörfin á gagnaöflun er. Ákveðið var að hafa milliþinghald 20. október þar sem farið verður yfir vitnalistann og þá ætlar saksóknari að vera búinn að senda skriflega greinagerð um listann til að flýta fyrir, til dómara og verjenda.

Þetta er fyrsta fyrirtakan í Baugsmálinu frá því Hæstiréttur Íslands staðfesti frávísun héraðsdóms á fyrsta ákæruliðnum í endurákærunni, sem snérist um kaup á 10-11 verslunarkeðjunni. Eftir standa 18 ákæruliðir sem taka á til efnislegrar meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert