Hrund Ólöf Andradóttir ráðin dósent í umhverfis- og byggingarverkfræði við HÍ

Hrund Ólöf Andradóttir.
Hrund Ólöf Andradóttir.

Dr. Hrund Ólöf Andradóttir hefur verið ráðin dósent í umhverfis- og byggingarverkfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands. Fræðasvið hennar er dreifing efna í vökva, hitaforðafræði og vatna- og straumfræði. Hrund Ólöf hefur numið og starfað erlendis frá árinu 1994 eða frá því að hún brautskráðist með C.S., próf í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún lauk meistaraprófi í byggingar- og umhverfisverkfræði frá MIT (Massachusetts Institute of Technology) og Ph.D. prófi frá sama skóla árið 2000.

Hrund Ólöf hlaut fjölda viðurkenninga í námi. Má þar nefna „Honorable Mention“ verðlaun fyrir doktorsritgerð, veitt af alþjóðlega vísindaráðinu Universities Council on Water Resources. Tvo Arthur T. Ippen styrki til að flytja erindi á alþjóðlegum vísindaráðstefnum. Nordtek styrk til skiptináms við Danmarks Tekniske Universitet, 1993 og viðurkenningu fyrir „frábæran námsárangur˝ á hverju misseri í Háskóla Íslands.

Á árunum 2001 til 2006 gegndi Hrund Ólöf starfi rekstrarráðgjafa hjá fyrirtækinu Mars and Co. í Connecticut á sviði heilsutrygginga, vatnshreinsunar í iðnaði og matvæla- og drykkjarframleiðslu. Árin 1994 til 2000 starfaði hún hjá MIT sem vísindamaður og sérfræðingur við könnun áhrifa straumfræðilegra og veðurfræðilegra þátta á dreifingu efna í menguðu vatnasviði og tók, m.a. þátt í alþjóðlegri samvinnu um vatnasviðsmál milli MIT, Svissnesku alríkisstofnunarinnar um umhverfistækni og vísindi (Swiss Federal Institute for Environmental Science and Technology) og Háskólans í Tókýó. Hrund Ólöf hefur birt fjölda fræðigreina og flutt fjölda fyrirlestra á fræðasviðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert