Fjölmiðlafrelsi á Íslandi með því mesta í heiminum

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. Morgunblaðið/ ÞÖK

Finnland, Írland, Ísland og Holland deila fyrsta sætinu á lista samtakanna Fréttamenn án landamæra (Reporters Without Borders, RSF) yfir lönd þar sem fjölmiðlafrelsi er talið mest. Frelsi fjölmiðla hefur minnkað í Bandaríkjunum vegna hins svonefnda stríðs gegn hryðjuverkum, Bandaríkin eru nú í 53. sæti á listanum og á svipuðum stað og Botswana, Tonga og Króatía. Fyrir fjórum árum voru Bandaríkin í 17. sæti. Listinn var birtur í dag fyrir árið 2006.

Ástæðan fyrir falli Bandaríkjanna á listanum er sögð herferð George W. Bush gegn hryðjuverkum, að forsetinn hafi í valdi hennar litið á hvern þann fjölmiðlamann sem gagnrýndi hryðjuverkastríðið sem grunsamlegan. RSF gagnrýnir einnig alríkisdómstóla í Bandaríkjunum sem viðurkenni ekki rétt fjölmiðlamanna til að leyna þá nafni heimildarmanna sinna. Dómstólar hóti jafnvel blaðamönnum þó þeir hafi ekki unnið neitt það efni sem tengist hryðjuverkum.

Fjölmiðlafrelsi í Japan er einnig talið minna, Japan fellur um 14 sæti í það 51. Vaxandi þjóðerniskennd og fjölmiðlaklúbbum er þar kennt um. Danir lækka einnig vegna skopmyndadeilunnar, þ.e birtingar á myndum af Múhameð spámanni, þar sem fjölmiðlamenn þurftu lögregluvernd í kjölfar myndbirtingarinnar.

Verst er ástandið í Norður-Kóreu, Erítreu, Túrkmenistan, Kúbu, Búrma og Kína. Þar hætta fréttamenn lífi sínu eða eiga á hættu fangelsisvist fyrir það að vilja fræða fólk um ástandið í heimalandinu, að því er RSF heldur fram. Frelsi fjölmiðla er meira að segja talið enn minna í N-Kóreu, Túrkmenistan og Erítreu en áður. N-Kórea er í 168. sæti, Túrkmenistan í 167. og Erítrea í 166.

Í Túrkmenistan var blaðamaðurinn Ogulsapar Muradova pyntaður til dauða og þykir það sýna að forseti landsins, Sparmurad Nyazov, beiti þá miklu og banvænu ofbeldi sem gagnrýna stjórnarstíl hans. Þá hafi fjöldi erítrerskra blaðamanna verið í fangelsi í rúm fimm ár án þess að umheimurinn hafi verið látinn vita af því. Þá stýrir Kim Jong-il, leiðtogi N-Kóreu, fjölmiðlum þar. Eins og fyrr sagði þá er frelsi fjölmiðla talið einna mest í heiminum hér á landi.

Saparmurat Niyazov eða „faðir allra Túrkmena“, eins og hann vill …
Saparmurat Niyazov eða „faðir allra Túrkmena“, eins og hann vill láta kalla sig. Reuters
Grunnskólabörn í heimsókn hjá Morgunblaðinu í tengslum við verkefnið Dagblöð …
Grunnskólabörn í heimsókn hjá Morgunblaðinu í tengslum við verkefnið Dagblöð í skólum. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina