Bréf Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til saksóknara

Morgunblaðinu hefur borist bréf stílað á Jón H. B. Snorrason, saksóknara, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, afhenti við yfirheyrslur hjá embætti ríkislögreglustjóra í gær. Birtist bréfið hér í heild sinni:

"Nú stend ég rétt einu sinni frammi fyrir því að starfsmenn þínir krefjast þess að ég mæti til yfirheyrslna hjá embætti ríkislögreglustjóra. Sama krafa er gerð til ýmissa náinna samstarfsmanna minna, þar á meðal systur minnar og föður. Þetta er sagt vera vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum mínum, Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. og Baugs Group hf. vegna kæru sem barst skattrannsóknarstjóra RSL í nóvember 2004, þ.e. fyrir tveimur árum.

Samkvæmt þessu er ætlunin að málið verði rannsakað af sama embætti og að miklu leyti af sömu einstaklingum og hafa rannsakað fyrri "afbrot" mín. Ég þarf ekki að fjölyrða neitt við þig um þá útreið sem málatilbúnaður ykkar hefur fengið í réttarkerfinu. Mér þykir með ólíkindum að sömu menn og töldu það nauðsynlegt gagnvart mér sem sakborningi, að annað embætti tæki við málum á hendur mér í kjölfar frávísunardóms Hæstaréttar 10. október 2005, telji sig nú afturbata og hæfa til þess að rannsaka mál á hendur mér - meira að segja mál sem hafði borist embættinu rétt tæpu ári áður en hæstaréttardómurinn gekk. Ríkislögreglustjórinn sjálfur, Haraldur Johannessen, sagði opinberlega eftir dóm Hæstaréttar, að eftir aðfinnslur réttarins ættu sakborningar í málinu heimtingu á því að annað embætti kæmi að málinu svo ekki yrði efast um málatilbúnaðinn. Þessi orð eru enn í fullu gildi. Sérstaklega þegar haft er í huga að sami maður sagði á sama vettvangi að þetta mál sem nú er verið að hefja rannsókn á muni "...að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál". Það hefur aldrei þótt vita á gott fyrir sakborning þegar sá sem stjórnar rannsókn lýsir því yfir fyrirfram, þ.e. áður en rannsókn hefst, hver niðurstaðan muni verða.

Ég hef áður vakið athygli á því að starfsmenn embættis RLS hafi farið offari í rannsókninni á hendur mér. Í réttarbeiðni RLS og erindum til lögregluyfirvalda í Lúxemborg í janúar, mars og apríl 2004 um aðstoð við rannsókn var tekið fram að ég og Tryggvi Jónsson værum m.a. grunaðir um fjárdrátt, fjársvik, innherjasvik og peningaþvætti í tengslum við viðskipti við Kaupthing Luxembourg. Í samræmi við Evrópusamning um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum fengu yfirvöld í Lúxemborg, að beiðni RLS, heimild til húsleitar á grundvelli þessara ásakana sem gerð var 28. apríl 2004. Eins og áður þegar RLS hefur ráðist inn í fyrirtæki, vegna rannsóknar á ásökunum á hendur mér, reyndust grunsemdir lögreglu ekki á rökum reistar. Ekkert kom í ljós sem studdi ásakanir um meintan frádrátt, fjársvik, innherjasvik eða peningaþvætti. Sést það best á því að hvorki í ákæru RLS 1. júlí 2005 né ákæru sérstaks saksóknara 31. mars 2006 er ákært fyrir slík brot í tengslum við viðskipti mín við Kaupthing Luxembourg. Eins og svo oft áður í aðför RLS á hendur mér virðist tilgangurinn helga meðalið. Í örvæntingarfullri leit að afbrotum grípur RLS til þess ráðs að vísa til alvarlegra efnahagsbrota, án þess að neinn fótur sé fyrir slíku. Tilgangurinn virðist vera sá að fá heimild til húsleitar, hvað sem það kostar, rétt eins og gert var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2002, þegar kredit varð að debit, eins og frægt er orðið. Er með ólíkindum að íslensk yfirvöld skuli hætta trausti sínu og trúverðugleika í samskiptum milli ríkja með "veiðiferðum" RLS í leit að afbrotum í því skyni að gera málið á hendur mér að "stærsta efnahagsbrotamáli Íslandssögunnar". Hvað munu íslenskar löggæslustofnanir gera við rannsókn alvöru mála þar sem reynir á peningaþvætti, viðskipti með eiturlyf eða mansal þegar trúverðugleiki þeirra er að engu orðinn vegna þess að þau hafa sífellt hrópað "úlfur, úlfur" við rannsókn Baugsmálsins? Raunar er að finna vísbendingu um að yfirvöld í Lúxemborg hafi þegar fengið bakþanka um þá aðstoð sem veitt var RLS. Í bréfi embættis saksóknara í Lúxemborg til RLS, dags. 3. ágúst 2004, segir m.a. eftirfarandi: "I insist on the speciality rule expressed in my transmission letter July 1st 2004. The documents seized in Luxembourg in execution of the legal assistance requests can only duly be used for the investigations mentioned in the letters rogatory, i.e. for the offences of forgery, breach of trust, money laundering and offences against the insider trading legislation. So all the informations provided cannot be used either in another penal investigation or as an evidence in another administrative (fiscal or other) proceeding."

Þið virðist ekki gera mikið með svona takmarkanir frá yfirvöldum í Lúxemborg því gögn sem stafa úr húsleitinni þar eru þegar meðal gagna í málum á hendur mér sem falla ekki undir takmörkunina í bréfi embættis saksóknara í Lúxemborg frá 3. ágúst 2004.

Með vísan til framangreinds fer ég fram á:

1. Að RLS skýri hvers vegna sagt er í bréfi til yfirvalda í Lúxemborg að við Tryggvi Jónsson höfum framið svo alvarleg afbrot sem þar eru tilgreind. Er leyfilegt að villa um fyrir dómstólum eða yfirvöldum erlendra ríkja og fá þannig gögn eða upplýsingar á röngum forsendum?

2. Að RLS skýri nákvæmlega hvaða gagna var aflað með aðgerðunum í Lúxemborg.

3. Að RLS skýri með hvaða hætti verður komið til móts við skilyrði sem yfirvöld í Lúxemborg settu fyrir afhendingu gagna.

4. Hver sé skýring þess að gögn, sem fengust í húsleitinni í Lúxemborg séu hluti málsskjala í málinu nr. 514/2006, þegar fyrir liggur að yfirvöld í Lúxemborg hafa bréflega lagt bann við notkun þeirra nema í nánar tilgreindum tilgangi.

Virðingarfyllst,

Jón Ásgeir Jóhannesson"

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert