Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer vel af stað

mbl.is/Ómar

164 höfðu greitt atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík klukkan eitt í dag en þá var klukkutími frá því prófkjörið hófst. Þá hafa 600 greitt atkvæði utan kjörfundar en rúmlega 21.000 manns eru á kjörskrá samkvæmt upplýsingum Þórunnar Guðmundsdóttir, formanns kjörnefndar. Um 12.000 manns greiddu atkvæði í síðasta prófkjöri flokksins.

Nítján frambjóðendur taka þátt í prófkjörinu sem fer fram í dag og á morgun. Allir félagsbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík sem náð hafa 16 ára aldri mega kjósa, sem og stuðningsmenn flokksins sem undirritað hafa inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í Reykjavík fyrir lok kjörfundar.

Frambjóðendur í prófkjörinu eru: Ásta Möller alþingismaður, Birgir Ármannsson alþingismaður, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Grazyna M. Okuniewska hjúkrunarfræðingur, Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, Illugi Gunnarsson hagfræðingur, Jóhann Páll Símonarson sjómaður, Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur, Marvin Ívarsson byggingafræðingur, Pétur H. Blöndal alþingismaður, Sigríður Andersen lögfræðingur, Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, Steinn Kárason umhverfishagfræðingur, Vilborg G. Hansen landfræðingur, Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, og Þorbergur Aðalsteinsson, sölu- og markaðsstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert