Stjórnmálamönnum boðið í gönguferð um Ölkelduháls og Hverahlíðar

Frá Hellisheiði
Frá Hellisheiði mbl.is/ÞÖK

Opið bréf til Alþingismanna, borgarfulltrúa og annarra stjórnmálamanna vegna Ölkelduháls og Hverahlíðar.

„Undanfarin misseri hafa miklar framkvæmdir staðið yfir á Hengilssvæðinu. Þar reisir Orkuveita Reykjavíkur hverja gufuaflsvirkjunina á fætur annarri. Þrjár virkjanir hafa þegar risið eða eru í byggingu og tvær aðrar eru nú á teikniborðinu eða komnar í umhverfismatsferli. Það eru Ölkelduhálsvirkjun og Hverahlíðarvirkjun.

Mikill jarðhiti er á þessu svæði en ófáir stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir að Hengilssvæðið er eitt fjölbreyttasta og víðfeðmasta hverasvæði landsins. Þar er hægt að upplifa stórkostlega fjölbreytni mismunandi hvera, allt frá skvettandi vatnshverum með kísilútfellingum til bullandi leirhvera. Á einum degi er unnt að sjá svo mikla fjölbreytni að slíkt fyrirfinnst varla annars staðar á Íslandi að frátöldu Torfajökulssvæðinu og e.t.v. Kerlingarfjöllum. Verði af byggingu virkjunar á Ölkelduhálsi munu þau hverasvæði sem enn eru ósnortin af manna völdum á Hengilssvæðinu skerðast verulega.

Eitt af því sem einkenndi fjölmiðlaumræðu og kappræður stjórnmálamanna um Kárahnúkavirkjun var hversu lítt þekkt áhrifasvæði virkjunarinnar var. Fáir vissu hverju stóð til að fórna. Íslenskir fjallaleiðsögumenn óttast að hið sama verði raunin um Hengilssvæðið. Íbúar stærsta þéttbýlis landsins mega ekki horfa framhjá þessu gullfallega svæði rétt við bæjardyrnar og stjórnmálamenn verða að axla ábyrgð á verndun þess.

Við hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum viljum leggja okkar að mörkum til umræðunnar með því að bjóða þeim kjörnu fulltrúum sem málið varðar, alþingismönnum og borgarfulltrúum ásamt fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur í kynnisferðir um svæðið. Við höfum skipulagt ferðir inn á Ölkelduháls og gönguferðir frá Nesjavöllum yfir í Reykjadali í mörg ár og viljum miðla af þekkingu okkar á svæðinu. Aðalatriðið er að þegar kemur að því að veita virkjanaleyfi fyrir Ölkelduháls og Hverahlíð, verðið þið - kjörnir fulltrúar okkar - ekki jafn illa upplýstir og reyndin var þegar atkvæði féllu á Alþingi um Kárahnúkastíflu og Hálslón; að þið hafið fyllstu upplýsingar um verndargildi svæðisins.

Dagana 4, 5. og 6. nóvember bjóðum við ykkur í gönguferð um Ölkelduháls og nágrenni. Lagt verður af stað frá BSÍ kl 13.00 og komið aftur í bæinn á milli 17.00 og 18.00 Vinsamlega látið undiritaðann vita um þátttöku á einar@mountainguide.is eða í síma 660 65 99. Henti þessir tímar ekki fyrir einhverja getum við fundið annan tíma sem hentar betur," að því er segir í opnu bréfi frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Einar Torfi Finnsson, einn eiganda Íslenskra fjallaleiðsögumanna skrifar undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina