Samstarfsráðherra Færeyja segir afskipti Rannveigar ótrúleg

Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja.
Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja.

Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja, sagði í viðtali við Morgunblaðið um hádegisbil í dag að afskipti Rannveigar Guðmundsdóttur af málefnum samkynhneigðra í Færeyjum væru ótrúleg, en Rannveig tók málið upp í fyrirspurnartíma á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í morgun. „Íslendingar eiga ekkert með að skipta sér af innanríkismálum Færeyinga og alls ekki af málum sem eru til meðferðar í færeyska þinginu. Ekki skipta Færeyingar sér af málefnum Íslendinga,“ sagði Jógvan.

Hann sagði að norrænar þjóðir ættu frekar að líta til Færeyja eftir fyrirmyndum, frekar en að leyfa sér að gagnrýna færeysku þjóðina opinberlega. Færeyjar væri besta landið á Norðurlöndunum og að færeyska þjóðin hefði kristin og íhaldsöm gildi að leiðarljósi. Hann bætti við að í Færeyjum væri glæpatíðni lægri, hjónaskilnaðir færri og fæðingartíðni hærri en annars staðar á Norðurlöndunum og að Færeyingar ættu að standa vörð um bann við fóstureyðingum.

Jógvan á Lakjuni á sem ráðherra ekki sæti á færeyska þinginu en sagði að ef hann ætti þess kost að greiða atkvæði gegn auknum réttindum samkynhneigðra myndi hann gera það.

mbl.is