Yfirlýsing frá Jóhannesi Jónssyni

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Jóhannesi Jónssyni vegna skýrslutöku hjá Ríkislögreglustjóra:

"Lögmaður minn hefur tilkynnt mér að lögreglumaður hjá efnahagsbrotadeild RLS hafi haft samband við hann til að boða mig sem sakborning í skýrslutöku hjá embætti RLS vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum í rekstri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., en ég er stjórnarformaður félagsins. Skýrslutakan mun fara fram í dag. Fyrir liggur að yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar, Jón H.B. Snorrason, stýrir umræddri rannsókn á ábyrgð Haraldar Johannessen Ríkislögreglustjóra.

Í ágústmánuði árið 2002 var ég fyrst yfirheyrður með réttarstöðu sakbornings hjá RLS. Fram til loka júní 2005 var ég yfirheyrður samtals átta sinnum með stöðu sakbornings af starfsmönnum embættisins. Með ákæru Ríkislögreglustjóra, sem var gefin út hinn 1. júlí 2005, var ég ákærður fyrir fjárdrátt og hlutdeild í fjárdrætti fyrir ríflega 40 milljónir, umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum að fjárhæð tæpar 1.200 milljónir og loks að hafa komið mér undan að standa skil á ríflega hálfri milljón til ríkissjóðs vegna innflutnings á bifreið frá Bandaríkjunum.

Eins og alkunna er var öllum ákæruliðum nema þeim sem laut að innflutningi bifreiðarinnar vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp 10. október 2005. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. mars 2006 var ég sýknaður af ákæruliðnum, sem varðaði innflutning á bifreiðinni. Mat sérstaks ríkissaksóknara var að áfrýja ekki þeim þætti málsins til Hæstaréttar.

Með bréfi Sigurðar Tómasar Magnússonar setts ríkissaksóknara til mín, dagsettu hinn 29. júní, var mér tilkynnt að ekki yrði gefin út ákæra á hendur mér vegna þeirra sakarefna, sem ákæran 1. júlí 2005 laut að.

Nú þarf ég að láta bjóða mér það að verða kallaður fyrir sem sakborningur í rannsókn sem Jón H.B. Snorrason stýrir. Sá hinn sami gaf út ákæru á hendur mér vegna rangra en jafnframt alvarlegra sakargifta hinn 1. júlí 2005. Mat bæði héraðsdóms og Hæstaréttar var að sú ákæra væri ekki tæk til efnismeðferðar, þar sem ekki stóð steinn yfir steini við gerð hennar.

Í tæp þrjú ár þurfti ég því að sitja undir því að vera sakborningur við rannsókn lögreglunnar og síðar ákærður maður vegna alvarlegra og jafnframt rangra sakargifta. Á því bera ábyrgð Jón H.B. Snorrason yfirmaður efnahagsbrotadeildar RLS og Haraldur Johannessen Ríkislögreglustjóri, sem hafa að mínu mati gert sig seka um alvarleg afglöp í starfi, svo alvarleg að þeim báðum hefði átt að vera vikið úr starfi umsvifalaust þegar Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 10. október 2005. Þeir bera ábyrgð á þeim röngu sakargiftum, sem ég mátti þola frá ágúst 2002 til og með 15. mars 2006. Þrátt fyrir það eru þeir enn að, þvert ofan í eigin yfirlýsingar í kjölfar dóms Hæstaréttar 10. október 2005, bæði gagnvart mér, börnum mínum og öðrum og sitja að því er best verður séð í öruggu skjóli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, sem öllum er kunnugt um hvaða hug ber til sonar míns og þeirra fyrirtækja, sem við fjölskyldan komum að.

Ég mun mæta til yfirheyrslunnar eins og lög bjóða. Þar mun ég tjá mig um sakleysi mitt í málinu. Það breytir því hins vegar ekki, að traust mitt á þeim mönnum, sem stýra rannsókninni er ekkert, enda hefur framferði þeirra sl. rúm fjögur ár verið með þeim hætti.

Ég fullyrði að engin rannsókn hér á landi hafi tekið annan eins tíma. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að halda fólki í gíslingu rannsóknar og saksóknar."

Reykjavík 13. nóvember 2006

Jóhannes Jónsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert