Börn á fjórða ári fá stafrófskver að gjöf

Borgarbókasafn Reykjavíkur, Bókasafn Seltjarnarness og Bókasafn Mosfellsbæjar ætla í samstarfi við heilsugæslustöðvarnar og með styrk frá Mjólkursamsölunni að gefa börnum á 4. ári í þessum bæjarfélögum bókasafnsskírteini og Stafrófskver eftir Sigrúnu og Þórarinn Eldjárn. Fyrstu bækurnar voru afhentar í dag, á degi íslenskrar tungu, þegar börnin á leikskólanum Dvergasteini heimsóttu borgarbókasafnið í Grófarhúsi.

Pétur Gunnarsson rithöfundur, og formaður Rithöfundasambands Íslands, ávarpaði gesti, og hóf mál sitt á „töfraorðunum“ - einu sinni var ... „Þannig hljóða töfraorðin og það er segin saga að þau hafa ekki fyrr verið sögð, en sá sem mælir þau og hinn sem hlustar eru komnir eitthvað út í buskann,“ sagði Pétur.

„Það er svo skrítið að þrátt fyrir alla tækni nútímans er eins og það verði alltaf minna og minna af tíma. Ófáir foreldrar sakna þess að geta ekki varið meiri tíma með börnunum sínum, það er vinnan náttúrulega og fundirnir og fréttir og kastljós og úbbs! Það er komið myrkur, dagurinn er á förum - og við sem áttum alveg eftir að tala og vera saman.

Þá geta orðin góðu komið til hjálpar, lesin upphátt eða hvísluð í hljóði og sængin breytist í töfrateppi, þið eruð lögð af stað þangað sem allt getur gerst. Og þið eruð saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka