Hugleiðingar Arnars Jenssonar

Gestur Jónsson,
Gestur Jónsson, mbl.is/ÞÖK

Morgunblaðinu hefur borizt eftirfarandi athugasemd frá Gesti Jónssyni, lögmanni: "Það er grundvallarregla í réttarríki að sá maður sem sökum er borinn megi verja hendur sínar. Til þess á hann rétt á aðstoð verjanda. Hlutverk verjandans er að gæta hagsmuna skjólstæðings síns, tala máli hans og líta eftir því að þeir sem fara með opinbert ákæru- og/eða rannsóknarvald fylgi leikreglunum. Skyldur verjandans lúta að því að veita skjólstæðingi sínum alla þá aðstoð og vörn sem hann getur.

Í grein Arnars Jenssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra sem birtist í Morgunblaðinu í gær kemur fram afstaða gagnvart réttindum sakborninga sem ég tel áhyggjuefni. Fundið er að því að sakborningar í svonefndu Baugsmáli hafi ráðið til sín fjölda lögfræðinga og endurskoðenda "...til að draga skipulega fram gagnrýni á rannsóknaraðila og ákæruvald". Átalið er að Baugsmenn hafi varið miklu fé til þess að ráða fjölda aðila, þ.m.t. heilu lögfræðistofurnar "...til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins." Það er einmitt lögbundið hlutverk verjanda að setja fram gagnrýni á rannsóknaraðila og ákæruvald þegar efni eru til og tala máli skjólstæðings síns í því skyni að hafa áhrif á niðurstöðu dómara.

Í grein sinni telur Arnar Baugsmálið vera dæmi um óþolandi þróun í réttarkerfinu og kallar á "... viðbrögð yfirvalda þessa lands." Hvað á Arnar við? Vill hann takmarka rétt sakbornings til þess að bera af sér sakir? Vill hann að þeir sem stjórna rannsókn opinberra mála eigi jafnframt að ákveða hverjir skuli vera verjendur sakborninga og hvernig þeir skuli haga störfum sínum?"

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert