Stúdentar telja þörf á úrbótum hjá LÍN

Námsmannahreyfingarnar BÍSN, INSÍ, SHÍ og SÍ telja að úrbóta sé þörf hjá Lánasjóði námsmanna vegna úthlutunar námslána en Alþingi hefur samþykkt breytingartillögur við fjárlagafrumvarp næsta árs um að lækka framlag til LÍN um 90 milljónir króna.

„Þrátt fyrir að fjölgun lánþega verði ekki sú sama og upphafleg spá gerði ráð fyrir er úrbótar þörf hjá LÍN vegna úthlutunar námslána. Sjóðnum vantar aukið fjármagn til að gera nauðsynlegar breytingar. Sem dæmi má nefna að enn er ekki farið að lána fyrir skólagjöldum í grunnnámi erlendis, endurgreiðsla þarf að stöðvast þegar nám hefst að nýju, námsmenn í hlutanámi fá ekki námslán, leiðrétta þarf upphæð grunnframfærslu fyrir ákveðna hópa. Vaxtarstyrkurinn sem á að brúa bilið í tekjuöflun námsmanna milli þess að nám hefst og að námslán eru greidd út er ekki nógu hár og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem að námsmannahreyfingarnar hafa verið að berjast fyrir undanfarin ár.

Augljóst er að svigrúm var innan fjárlaga til að veita ákveðinni upphæð í sjóðinn og þykir námsmannahreyfingunum miður að sú upphæð hafi verið skorin niður.

Fyrir hönd námsmannahreyfinganna
Eyrún Jónsdóttir – framkvæmdastjóri BÍSN (Bandalag íslenskra námsmanna)
Guðni Rúnar Jónasson - formaður INSÍ (Iðnnemasamband Íslands)
Ásgeir Runólfsson - framkvæmdastjóri SHÍ (Stúdentaráð Háskóla Íslands)
Hjördís Jónsdóttir - framkvæmdastjóri SÍNE (Samband íslenskra námsmanna erlendis)."

mbl.is