Verjendur kæra úrskurð um vitnaleiðslur

Gestur Jónsson, Jakob R. Möller, Einar Þór Sverrisson og Þórunn …
Gestur Jónsson, Jakob R. Möller, Einar Þór Sverrisson og Þórunn Guðmundsdóttir, verjendur í Baugsmálinu. mbl.is/ÞÖK

Verjendur fimm manna, tengdum Baugi Group, tilkynntu nú eftir hádegi að þeir ætli að kæra úrskurð héraðsdómara frá í dag um að ríkislögreglustjóri og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, þurfi ekki að gefa skýrslu fyrir dómi. Fyrirtaka í Baugsmálinu svonefnda var einnig í dag og kom þar fram, að aðalmeðferð hefst væntanlega 12. febrúar og að meðdómendur með Arngrími Ísberg, héraðsdómara, verða Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, og Garðar Valdimarsson, hrl.

Skattamálið tengist rannsókn embættis ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssonar og Stefáns Hilmarssonar. Verjendur fimmmenninganna hafa krafist þess að öllum starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra verði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins vegna ýmissa yfirlýsinga yfirmanna embættisins í fjölmiðlum.

Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, lagði í gær fram greinargerð vegna kærunnar en þar kemur fram að orð sem höfð voru eftir Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra, í Blaðinu 12. október 2005 séu ekki hans. Í greinargerðinni segir m.a.: „Ríkislögreglustjóri bendir á að framsetning blaðamanns Blaðsins á því sem fram fór á umræddum fréttamannafundi og það hvernig hann túlkar það sem þar fór fram er á hans ábyrgð og hans upplifun á því sem fram fór."

Einnig kemur fram að orð Jóns H.B. í Blaðinu 14. nóvember sl. séu tekin úr samhengi en þar segir Jón m.a.: „Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar." Segir í greinargerðinni að þegar orðin séu skoðuð í samhengi við greinina í heild sinni sé ekki verið taka afstöðu til sektar.

Verjendur fimmmenninganna fóru fram á að Haraldur, Jón H.B. og Andrés Magnússon, blaðamaður á Blaðinu, gæfu skýrslu fyrir dómi vegna málsins. Eftir að hafa ráðfært sig við ríkislögreglustjóra neitaði Jón að yfirmenn embættisins myndu gefa skýrslu. Sagði hann ekki eðlilegt að handhafar ákæruvalds í Baugsmálinu bæru vitni á meðan málið er enn rekið fyrir dómi. Gestur Jónsson hrl., verjandi Jóns Ásgeirs, sagðist hins vegar telja að þeim bæri skylda til að mæta fyrir dóm. Dómari úrskurðaði að sú skylda væri ekki fyrir hendi en sá úrskurður hefur nú verið kærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert