Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í sjónvarpssal í kvöld. Meðal þeirra bóka sem tilnefndar eru má nefna Upp á Sigurhæðir eftir Þórunni Valdimarsdóttur í flokki fræðirita og Aldingarðurinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson í flokki fagurbókmennta.

Í flokki vísindarita og rita almenns efnis eru þessar bækur tilnefndar:

Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, Íslenskir hellar eftir Björn Hróarsson, Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson, Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson og Upp á Sigurhæðir eftir Þórunni Valdimarsdóttur.

Í flokki fagurbókmennta eru þessar tilnefndar:

Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur, Sendiherrann eftir Braga Ólafsson, Fyrir kvölddyrum eftir Hannes Pétursson, Guðlausir menn eftir Ingunni Snædal, og Aldingarðurinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.

Tvær þriggja manna dómnefndir völdu verkin sem tilnefnd voru. Nefndina sem valdi verk úr flokki fræðirita og bóka almenns efnis skipuðu: Sigríður Þorgeirsdóttir formaður, Gunnar Helgi Kristinsson og Stefán Pálsson. Nefndina sem tilnefndi verk úr flokki fagurbókmennta skipuðu: Kristján Kristjánsson formaður, Sigríður Matthíasdóttir og Einar Falur Ingólfsson.

Alls voru lagðar fram af útgefendum 67 bækur, 43 í flokki fagurbókmennta og 24 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Þriggja manna lokadómnefnd tekur nú við og velur eina bók úr hvorum fimm bóka flokki. Forseti Íslands afhendir verðlaunin í byrjun næsta árs og hann skipar formann lokadómnefndar. Hann hefur þegar skipað Stefán Baldursson. Með Stefáni í lokadómnefnd sitja formenn dómnefndanna tveggja, sem tilnefndu verkin tíu, þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Kristján Kristjánsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka