Varnarviðræður í næstu viku

JAS Gripen orrustuþota sem Norðmenn athuga nú hvort henti norska …
JAS Gripen orrustuþota sem Norðmenn athuga nú hvort henti norska flughernum. Mynd fengin á heimasíðu Gripen
Eftir Ólaf Þ. Stephensen olafur@mbl.is
VIÐRÆÐUR um varnar- og öryggismál við dönsk og norsk stjórnvöld hefjast í næstu viku. Ákveðinn hefur verið fundur danskra og íslenzkra embættismanna í Kaupmannahöfn nk. mánudag. Þá koma norskir embættismenn til Íslands sama dag og funda með íslenzkum starfssystkinum sínum fram á þriðjudag, auk þess sem þeir skoða þá aðstöðu á vellinum sem stendur öðrum NATO-ríkjum til boða.

Háttsettir embættismenn frá utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Danmerkur og Noregs munu taka þátt í fundunum í næstu viku. Af Íslands hálfu taka þátt í fundunum þau Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi í utanríkismálum í forsætisráðuneytinu og Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri dómsmála- og löggæzluskrifstofu dómsmálaráðuneytisins. Þessi þrjú sitja jafnframt í nefnd, sem fjalla á um framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin við breyttar aðstæður.

Viðræður við Breta eftir áramót

Grétar Már sagði í samtali við Morgunblaðið að rætt hefði verið við Breta um fund embættismanna fljótlega og væri stefnt að honum í London 16. janúar. Stefnt væri að fundi með Kanadamönnum á svipuðum tíma. Þá færu fram þreifingar við fleiri NATO-ríki, m.a. um nýtingu aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli.

"Samkomulag okkar við Bandaríkin stendur fyrir sínu, það er klárt að þau skuldbinda sig til að verja Ísland á ófriðartímum. Spurningin er hvað gerist á friðartímum. Helzta samstarfsríki okkar á friðartímum verður áfram Bandaríkin, eins og samkomulagið við þau gerir ráð fyrir. Við viljum hins vegar búa til sýnilega samstarfsfleti við önnur ríki, þannig að það, sem við viljum byggja upp, og það sem þau gera á Norður-Atlantshafinu falli saman."

Grétar Már segir að eitt af markmiðunum með auknu samstarfi við önnur NATO-ríki sé að afla bandamanna í þeirri viðleitni að sannfæra Mannvirkjasjóð NATO um að mannvirkin hér, t.d. ratsjárstöðvarnar, hafi notagildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »