Bloggsíðan Orðið á götunni í tímabundið frí

Ritstjórn bloggsíðunnar Orðið á götunni hefur ákveðið að fara í tímabundið frí frá skrifum á síðuna, samkvæmt því sem þar kemur fram. Orðið á götunni er önnur vinsæla íslenska bloggsíðan sem tilkynnir um hlé frá skrifum á undanförnum dögum en skammt er síðan Hrafn Jökulsson, tilkynnti á bloggsíðu sinni að hann væri að hætta tímabundið að skrifa blogg.

Greint var frá því á mbl.is fyrir skömmu að fjöldi virkra bloggsíðna í heiminum muni sennilega ná hámarki um mitt næsta ár og að þá verði reknar 100 milljónir virkra bloggsíðna í netheimum.

Á bloggsíðunni Orðið á götunni segir m.a: „Þeim sem lesið hafa þessa síðu reglulega eiga þrátt fyrir þetta tæplega eftir að finna fyrir skorti á áhugaverðum bloggfréttum um stjórnmál, viðskipti og því sem fólk er að tala um. Framboðið af slíku er yfirdrifið nóg um þessar mundir.
Ólíkt því sem var þegar Orðinu á götunni var hleypt af stokkunum í byrjun júní síðastliðnum er nú hægt að velja milli fjölmargra góðra bloggsíðna þar sem fjallað er óstaðfestar fréttir, orðróm og lesið á milli línanna í fréttum hefðbundinna fjölmiðla. Það er mjög góð þróun og stuðlar að öflugri þjóðfélagsumræðu.
Mikið af því sem áður var aðeins rætt á göngum og í hinum frægu reykfylltu bakherbergjum er nú um leið komið út á netið og því er orðið erfiðara en áður fyrir menn að reyna að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa. Hún öðlast þvert á móti sjálfstætt líf. Stjórnmálamenn og forystumenn í viðskiptalífi hafa ekki lengur efni á tjá sig ekki um erfið mál og hið sígilda áhyggjuefni um að hægt sé að misnota völd yfir fjölmiðlum er ekki jafn aðkallandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert