Einn kafli bættist við

Lögmenn sakborninga í réttarsalnum í gær.
Lögmenn sakborninga í réttarsalnum í gær. mbl.is/RAX

„Við erum ánægð með að varakrafan var tekin til greina og í sjálfu sér óánægð með að aðalkrafan skyldi ekki vera tekin til greina," sagði Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar. Jakob segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar en málsaðilar hafa tíma fram á fimmtudag.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ríkislögreglustjóri og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ættu að víkja sæti við rannsókn á meintum skattalagabrotum en féllst ekki á kröfu um að undirmenn þeirra væru vanhæfir. Þetta segir Jakob vera umdeilanlegt. „Dómarinn segir að vanhæfi yfirmanns leiði ekki sjálfkrafa í stjórnsýslurétti til þess að undirmenn hans verði taldir vanhæfir. Síðan sýnist okkur dómarinn segja að í þessu tilviki hafi ekki verið sýnt fram á að undirmennirnir teldust vanhæfir." Þannig telur Jakob að dómarinn útiloki ekki vanhæfi undirmanna ríkislögreglustjóra, þó að það hafi ekki komið fram í málinu.

Jakob segir að ef málið verði kært til Hæstaréttar verði hugsanlega látið reyna á hvort undirmenn verði ekki vanhæfir við að hafa lotið stjórn og tekið við fyrirmælum í rannsókn frá mönnum sem eru vanhæfir.

Varðandi rannsóknina telur Jakob að frá og með 12. október 2005 séu rannsóknarathafnir sem hafi átt sér stað merktar vanhæfni. Hann segir hugsanlegt að tímamarkið sé fyrr, en það geti ekki verið seinna. Jakob útilokar ekki að stofna þurfi nýtt mál til að skera úr um það. „Þetta náttúrlega þýðir að það bættist að minnsta kosti einn kafli við málið."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert