Óvenjuleg sýn á málið

Jón H. B. Snorrason.
Jón H. B. Snorrason. mbl.is/RAX

„Við þurfum að fara yfir þennan rökstuðning og átta okkur á hvort við þetta verði unað eða við kærum," segir Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, um úrskurð héraðsdóms. Hann er ekki sammála túlkun verjenda fimmmenninganna um að ákvörðunin hafi áhrif á rannsóknina. „Rétturinn hafnar því að hætta eigi rannsókninni eða hún sé ólögmæt."

Aðspurður hvort úrskurður héraðsdóms hafi komið honum á óvart segir Jón dóminn hafa óvenjulega sýn á málið. „Þegar þeirri ákvörðun, sem þurfti að taka í kjölfar hæstaréttardómsins [10. október 2005], var skotið til ríkissaksóknara vorum við aðeins að skjóta þeirri ákvörðun til ríkissaksóknara en ekki fjalla um neitt annað en það. Þannig að okkur kemur á óvart að þessar ástæður hafi verið fluttar á málið í heild sinni. Dómurinn tekur fram að þrátt fyrir þær ástæður sem við vísuðum til í lögum, sem varða ekki vanhæfni, beri samt sem áður að líta svona á þetta, það er óvenjulegt."

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að líta beri á rannsóknina á meintum skattalagabrotum sem framhald málsins sem hófst með húsleit í húsakynnum Baugs í ágúst 2002, og þannig rannsóknina sem eina heild. Jón er ósammála þeirri túlkun og tekur sem dæmi húsleit lögreglu vegna gruns um fíkniefnamisferli. „Ef þar finnast svo bæði fíkniefni og barnaklám, þá er það ekki sama málið, þó að þetta hafi komið upp í sömu húsleitinni."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert